Fyrir rúmu ári tók stjórn Samherja ákvörðun um að blása til sóknar. Ákveðið var að endurnýja skipaflota félagsins með markvissum hætti. Með þessu verður vinnuaðstaða, aðbúnaður, öryggi og tekjumöguleikar sjómanna bætt. Nýtt skip bættist í flotann síðla sumars 2006, Margrét EA, og annað, Oddeyri EA, um síðustu helgi og ætlunin er að halda áfram á þessari braut. Jafnframt var ákveðið að búa betur að starfsmönnum félagsins í landi með því að endurnýja skrifstofuhúsnæði félagsins.
Fullkomnasta fiskvinnsluhús í heimi
Endurnýjað og stækkað húsnæði höfuðstöðva Samherja var formlega tekið í notkun í síðustu viku í fjölmennu hófi. Í ræðu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, við þetta tækifæri kom fram að mikil vinna hefur verið lögð innan fyrirtækisins í að hanna fullkomnasta fiskvinnsluhús heims í Dalvíkurbyggð . Fiskvinnsluhúsið á Dalvík hefur meðal annars verið stærsti framleiðandi landsins á ferskum fiskhnökkum undanfarin ár m.a vegna þess að hráefnisöflunin byggir öll á veiðum stærri togskipa. Af sömu ástæðu hefur starfsfólk frystihússins á Dalvík ekki verið kauplaust einn einasta dag frá árinu 2000.
“Að reisa fullkomnasta fiskvinnsluhús í heimi er mikil fjárfesting og það verður að viðurkennast að við veltum því fyrir okkur hvort við eigum að taka fyrstu skóflustunguna núna einhvern næstu daga eða hvort við eigum að bíða fram yfir kosningar,” sagði Þorsteinn Már m.a. í ræðu sinni. Hann sagðist vera þeirrar skoðunar að við ættum ekki að horfa á eftir fiskvinnslunni okkar til Kína eins og svo margar Evrópuþjóðir hafi gert á síðustu misserum. “Við eigum, að hætti forfeðra okkar, að safna liði og hefna!”
Í máli Þorsteins kom ennfremur fram að framkvæmdir við byggingu 4.300 fermetra hús yfir eldisker Silfurstjörnunnar í Öxarfirði eru nú á lokastigi en þar er væntanlega um að ræða eina af stærri byggingum utan höfuðborgarsvæðisins - ef frá eru talin álver og fótboltahús.
Formleg vígsla
Þorsteinn Már færði þeim, sem að framkvæmdunum við hið nýja skrifstofuhúsnæði stóðu, bestu þakkir fyrir vel heppnað verk og samstarfsfólki á skrifstofunni þakkaði hann umburðarlyndið meðan á framkvæmdunum stóð. |
Samherji hóf starfsemi sína árið 1983, fyrir tæpum aldarfjórðungi. Fyrsta árið var skrifstofa félagsins í eldhúsi forstjórans, fyrst í Reykjavík og síðan á Akureyri. Síðan hafði skrifstofuhaldið stutta viðkomu í Glerárgötu 34, en um leið og húsið að Glerárgötu 30 hafði verið byggt, í árslok 1984, flutti Samherji á þriðju hæðina. Þar var starfssemin á tæpum 30 fermetrum, sem voru vel nýttir! Starfsemin óx og dafnaði gegnum tíðina og þurfti aukið skrifstofurými. Það má eiginlega orða það svo að Samherji hafi markvisst rutt öðrum fyrirtækjum úr húsinu og smám saman verið að færa út kvíarnar. Fyrst var þriðja hæði yfirtekin í fjórum til fimm aföngum og síðan eitt og eitt herbergi fengið “lánað”, ýmist uppi eða niðri. Nú er félagið einnig komið með alla fjórðu hæðina og húsrýmið því tæpir 700 fermetrar að stærð.
Samherji hefur frá upphafi verið í farsælli sambúð með Landsvirkjun og Verkfræðiskrifstofu Sigurðar Thoroddsen í Glerárgötu 30 og sú sambúð varir enn. Þorsteinn notaði tækifærið og þakkaði Landsvirkjun og VST einstaklega góða sambúð og samskipti öll þessi ár.
Í höfuðstöðvunum koma allir þræðir í starfsemi Samherja saman. Þar fer fram gríðarlega öflugt markaðs- og sölustarf fyrir Samherja og dóttur- og samstarfsfélög hans erlendis. Þar starfa að minnsta kosti 20 manns, sem hafa útskrifast úr Háskólanum á Akureyri á liðnum árum. Þetta segir sína sögu um tengslin við Háskólann á Akureyri og þýðingu þess að háskólagengnu fólki bjóðist starf við hæfi á staðnum að útskrift lokinni. Vonast er til að þessi nýju og endurbættu húsakynni muni þjappa starfsmönnum Samherja, enn betur saman og hvetja þá til frekari dáða í framtíðinni.
![]() Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf. Myndir: Þórhallur J. |
Í fararbroddi
“Ég get með stolti sagt að Samherji hefur markað ákveðin spor í íslenskum sjávarútvegi á þeim tæpa aldarfjórðungi sem félagið hefur starfað. Samherji var í fararbroddi frystitogaravæðingarinnar á sínum tíma. Samherji gerbylti uppsjávarveiðum og -vinnslu með smíði Vilhelms og hefur nú sýnt eftirbreytnivert frumkvæði við að endurnýja skipastól sinn,” sagði Þorsteinn Már ennfremur.
Hann minnti á þá staðreynd að um það bil helmingur af veltu Samherja í dag verður til erlendis. “Ég þekki evrópskan sjávarútveg vel. Sjávarútvegur í öðrum löndum Evrópu býr við meiri stöðugleika en við hér á Íslandi búum við enda er rauði þráðurinn í allri fiskveiðistefnunni erlendis hlutfallslegur stöðugleiki.
Í Noregi deila menn nú um hvort hvort fyrirtæki geti treyst á veiðiheimildir sínar til tuga ára eða lengur. Hér er öll greinin sett í uppnám - og þar með öll framtíðarplön - að lágmarki á fögurra ára fresti,” sagði hann.
“Hjá Samherja starfa yfir 600 manns hér á landi og að auki höfum við leitast við að færa verkefni á ýmsum sviðum inn á Eyjafjarðarsvæðið. Við höfum líka átt þátt í að stofna önnur fyrirtæki og styrkja þau sem fyrir eru hér. Á tyllidögum kalla menn slíkt gjarnan margfeldisáhrif og tala helst ekki um þau nema í tengslum við stóriðju. Mér finnst ekkert að því að hampa margfeldisáhrifunum þegar Samherji er annars vegar enda er starfsemi félagsins ígildi stóriðju,” sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, að lokum.