Bréf til starfsfólks

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja/mynd samherji.is
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja/mynd samherji.is

Ágæta samstarfsfólk.

Heimildin birti í dag umfjöllun um mál sem hefur verið til rannsóknar í fimm ár. Þar er því haldið fram að upplýsingarnar varpi nýju ljósi á málsatvik. Svo er ekki. Umrædd umfjöllun í Heimildinni hnikar ekki, eða hrekur, fyrri yfirlýsingar mínar um málið. Þær standa óhaggaðar.

Mér þykir mjög miður og algjörlega óásættanlegt að fyrrverandi starfsfólki fyrirtækisins sé haldið í spennitreyju með réttarstöðu sakbornings í fimm ár án tilefnis. Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir virðist mega reikna með að þannig verði það áfram. Þá er útlit fyrir að ekkert tillit verði tekið til þess mikla álags sem slík réttarstaða hefur fyrir heiðarlegt og samviskusamt fólk og fjölskyldur þeirra.

Eins og ég hef áður sagt þá munum við verjast þessum ásökunum af fullum þunga en málið verður ekki rekið í fjölmiðlum.

Aðalatriðið er að þið látið ekki þessa umfjöllun raska vinnufriðnum og haldið áfram ykkar góðu verkum. Vikan sem er að líða gekk vel, tíðarfarið hefur verið gott, skipin fiska vel, vinnslurnar eru öflugar að vanda og þá borðaði fiskurinn vel í eldinu.

Bestu kveðjur og góða helgi,
Þorsteinn Már