Bréf til starfsmanna

Kæru starfsmenn,

Það er okkur sönn ánægja að upplýsa að Seðlabankinn hefur loksins viðurkennt að ekkert var hæft í ásökunum hans á hendur Kaldbaki ehf., dótturfélagi Samherja. Hefur Seðlabankinn því fellt niður málið eftir tæplega 60 mánaða langa rannsókn. Rétt er að geta þess að málið varðaði tvær bankafærslur, þar af var önnur færslan upp á 1.500 norskar krónur (19.700 íslenskar krónur), sjá hér úr bréfi seðlabankastjóra. Öll gögn sem bankinn þurfti í málinu hafði félagið afhent bankanum að beiðni hans. Þau voru ekki haldlögð í húsleitinni. Fyrir þetta kærði Seðlabankinn í tvígang til lögreglu.

Kaldbakur EA-1Með þessari ákvörðun hefur Seðlabankinn loksins lokið málum gegn Samherja og tengdum félögum. Eftir stendur að fyrir héraðsdómi Reykjavíkur er nú rekið ógildingarmál vegna óréttmætrar sektar sem Seðlabankinn lagði á Samherja hf. í september á þessu ári. Erum við bjartsýn á að fullnaðarsigur fáist einnig í því máli.

Þó þessi niðurstaða hafi verið okkur löngu ljós þá skyggir tíminn og sú leið sem Seðlabankinn kaus að fara vissulega á. Þá samræmist það illa ítrekuðum yfirlýsingum bankans um að þar á bæ sé starfað „samkvæmt lagaskyldu“ eða „vönduðum stjórnsýsluháttum“.

Þó við höfum alla tíð unnið eftir bestu vitund í samræmi við lög og reglur hefur það reynt á okkur öll að verjast þeirri ósvífni og óréttlæti sem Seðlabankinn hefur beitt félagið og starfsfólk. Það er mikil refsing fólgin í því þegar upplýsingar um tilhæfulausa húsleit eru sendar út um allan heim og hefur sú aðgerð Seðlabankans ekki verið án afleiðinga fyrir Samherja. Þá er það svo að húsleit sem slík er annað og meira en „ekki neitt neitt“ eins og seðlabankastjóri hefur sagt. Húsleit er mikið áfall fyrir þá sem upplifa slíkt. Þessi orð seðlabankastjóra 16. nóvember sl. eru dæmigerð um dómgreindarleysið sem stjórnendur Seðlabankans hafa sýnt af sér í þessu máli. Í þessu sambandi er rétt að hafa einnig í huga þann fjölda einstaklinga sem Seðlabankinn hefur kært til lögreglu í gegnum árin án þess að slíkt hafi leitt til sakfellingar.

Það er von okkar að menn verði látnir axla ábyrgð á tilhæfulausum og afar kostnaðarsömum aðgerðum undanfarinna ára og breytingar gerðar í stjórnsýslunni þannig að svona lagað geti ekki endurtekið sig, hvorki gagnvart okkur eða öðrum. Við skulum berjast fyrir því.

Þetta mál er búið að vera erfitt en við höfum farið saman í gegnum það. Við þökkum starfsmönnum öllum kærlega fyrir þann stuðning sem við höfum fengið.

Að lokum óskum við starfsmönnum öllum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.

Kær kveðja,

Þorsteinn Már Baldvinsson
Kristján V. Vilhelmsson


Úr bréfi seðlabankastjóra