Bréf til starfsmanna

Ágæta samstarfsfólk.

Mér finnst rétt að upplýsa ykkur um þá merkilegu breytingu sem orðið hefur í umfjöllun um málefni Samherja í tengslum við Namibíu. Á miðvikudaginn birti sérblað Aftenposten í Noregi, Innsikt, langa afsökunarbeiðni vegna umfjöllunar sem var í síðasta hefti blaðsins. Þetta er í fyrsta skipti sem virtur fjölmiðill tekur undir þau sjónarmið okkar að einhliða og hlutdrægar frásagnir eigi ekki heima í vandaðri fréttaumfjöllun, eins og við höfum sannarlega fengið að kynnast bæði hér á Íslandi og erlendis. Ég ætla að fara aðeins nánar yfir afsökunarbeiðni Aftenposten með ykkur.

 

„Aftenposten Innsikt biðst afsökunar á rangfærslum og skorti á andsvörum í febrúarútgáfu“

Þetta er fyrirsögnin á greininni sem birtist á áberandi stað í marshefti blaðsins sem kom út á miðvikudaginn en í febrúarhefti þess var fjallað gagnrýnislaust um Samherja á samtals átta síðum. Blaðamenn sem hafa lengi haft sérstakan áhuga á okkar fyrirtæki vitnuðu sjálfir til umræddrar greinar í febrúar með þeim orðum að tímarit „norska stórblaðsins Aftenposten“ væri að fjalla um málið, augljóslega til að gefa þessari umfjöllun aukna vigt.

Greinin nú er í senn leiðrétting og afsökunarbeiðni og eru þar leiðréttar fjölmargar rangfærslur sem birtust í fyrrnefndri umfjöllun í febrúar. Aftenposten tekur sérstaklega fram að greinin byggi á einhliða frásögn Jóhannesar Stefánssonar. Aðferðafræðin er okkur kunn; greinum er komið á framfæri við erlenda fjölmiðla og þær síðan fluttar á ný á Íslandi. Margar greinar af þessu tagi hafa birst í erlendum fjölmiðlum og allar því marki brenndar sem Aftenposten biðst nú afsökunar á.

Einhliða frásögn, engin ákæra, enginn samningur

Í afsökunarbeiðni Aftenposten kemur fram að blaðið hafi brotið gegn eigin starfsreglum sem leiddi til þess að Samherja hafi ekki verið gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri eins og starfsreglur blaðamanna kveði á um. Lesendur hafi jafnframt ekki verið upplýstir um að greinin hafi byggt á einhliða frásögn Jóhannesar Stefánssonar af málsatvikum. Þess hafi ekki verið getið að mál tengt Namibíu sé til rannsóknar hér á landi og málalyktir fáist ekki fyrr en með dómi eða niðurfellingu. Engin ákæra hafi verið gefin út á Íslandi. Þá eigi hvorki einstaklingar né félög tengd Samherja aðild að sakamálinu í Namibíu. Aftenposten hafi síðan ekki getað fullyrt, líkt og kom fram í greininni, að Jóhannes hafi komið fram „fyrir hönd“ Samherja vegna greiðslna til aðila í Namibíu og að einhver samningur hafi verið gerður við Namibíumennina vegna slíkra greiðslna. Þá er líka leiðrétt að rangt var farið með það hvenær Jóhannes lak gögnum til Wikileaks og þess ekki getið að það hafi verið þremur árum eftir starfslok hans hjá Samherja.

Engin gögn styðji hagnað

Á meðal annarra fullyrðinga sem Aftenposten leiðréttir er fullyrðing sem varðar viðskiptasamband Samherja við norska bankann DNB og fullyrðing um að rekstur útgerðar Samherja í Namibíu hafi „skilað miklum hagnaði“ en engin gögn styðji það. Blaðið leiðréttir einnig rangfærslur um kvótaeign Samherja Íslands ehf. hér á landi. Var fullyrt að hún næmi 24,3 prósentum af heildarkvótanum en rétt tala er 8,78 prósent.

Þá leiðréttir blaðið umfjöllun þess efnis að rannsókn lögreglunnar á Akureyri, þar sem nokkrir blaðamenn hafa réttarstöðu sakbornings vegna ætlaðra brota gegn friðhelgi einkalífs, tengist á einhvern hátt umfjöllun þessara sömu blaðamanna um Namibíumálið. Um sé ræða algjörlega óskylt mál og óviðkomandi meginefni þeirrar greinar sem birtist í febrúar.

Fleiri afsökunarbeiðnir

Það er ánægjulegt að ærlegur, virtur fjölmiðill hafi loksins séð í gegnum þann vef sem búið er að spinna um Samherja og fjalla um af öflugri fjölmiðlasamsteypu hér á Íslandi. Nöfn fjölmiðlanna og þeirra sem þá leiða þarf ég ekki að tilgreina. Það er allt þjóðkunnugt fólk sem nú sætir sakamálarannsókn. Verndari þeirra er æðsti stjórnandi opinbera hlutafélagsins sem mesta aflið hefur. Um það þarf ekki að hafa fleiri orð.

Aftenposten, sem er einn virtasti fjölmiðill Noregs, lét villa um fyrir sér en hafði kjark og burði vandaðs fjölmiðils til þess að leiðrétta rangfærslurnar undanbragðalaust og með áberandi hætti. Að mínu mati er þessi afsökunarbeiðni hjá Aftenposten mikilvægur áfangi fyrir okkur öll. Við höfum staðið þétt saman að vanda og nú bætist okkur óvæntur bandamaður frá Noregi sem tekur undir með okkur. Íslenskir fjölmiðlar notfærðu sér þessa röngu grein úr Aftenposten og byggðu fréttir á henni. Búast má við að þeir birti líka afsökunarbeiðnir fyrr en síðar þótt slík vinnubrögð séu þeim nokkuð framandi.

Morgunblaðið hefur einn fjölmiðla á Íslandi gert ítarlega grein fyrir þessari fréttnæmu og heiðarlegu afsökunarbeiðni hjá Aftenposten án þess að vera sjálft í þeim hópi sem áður hafði gert sér mat út fréttinni. Er það ánægjulegt og sýnir að vönduð fréttamennska er enn til á Íslandi.

Kæra samstarfsfólk

Við þessi tíðindi vakna margar áhugaverðar spurningar sem blaðamönnum hljóta að vera hugleiknar. Í dæmaskyni má velta því fyrir sér hvort virtur fjölmiðill geti notað frétt annars fjölmiðils sem hefur vafasamt orðspor sem heimild fyrir frétt sinni án frekari könnunar? Og hver er þá ábyrgðin þegar fréttin reynist röng? Telja má víst að um slík álitaefni muni stofnanir blaðamanna á Íslandi fjalla á næstunni og ef til vill líka um jafnræði, hlutleysi og tilgangsleysi siðanefnda.

Mér finnst mikilvægt að þið fáið réttar upplýsingar um það sem var leiðrétt. Því lét ég þýða afsökunarbeiðnina og er hún hér í viðhengi á bæði íslensku og ensku. Hjálagðar eru einnig upplýsingar um útgáfufélag Aftenposten en um er að ræða eitt stærsta og virtasta fjölmiðlafyrirtæki Noregs.

Bestu kveðjur og góða helgi,
Þorsteinn Már

Aftenposten Insikt biðst afsökunar

Aftenposten Insight apologises

Um Aftenposten

Aftenposten_Innsikt_mars_2023