Þorsteinn EA-810 á loðnuveiðum í febrúar
Í undirbúningi er að ráðast í breytingar á fjölveiðiskipinu Þorsteini EA þannig að um borð verði settur fullkominn búnaður til vinnslu og frystingar á síld og kolmunna. Ef áætlanir ganga eftir mun þetta gerast að lokinni loðnuvertíð næsta vor.
Með smíði á fjölveiðiskipinu Vilhelm Þorsteinssyni EA, sem kom til landsins fyrir rúmu ári síðan, var Samherji í raun að feta sig sinn inn á nýjar brautir í vinnslu uppsjávarfiska um borð. Þannig var þess freistað að auka verðmæti aflans og þar með verðmætasköpun í sjávarútvegi. Ýmsir höfðu efasemdir um að þessi mikla fjárfesting stæði undir sér, líkt og þegar frystitogaravæðingin byrjaði á sínum tíma. Útgerð Vilhelms hefur hins vegar fyllilega staðist áætlanir sem hefur síðan leitt til þess að nú er fyrirhugað að útbúa Þorstein með svipuðum hætti. „Auðvitað er ekki annað hægt en að vera sáttur við árangurinn á Vilhelm og þótt Þorsteinn sé minna skip teljum við að hann eigi einnig að geta náð góðum árangri með frekari vinnslu aflans um borð," segir Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja. Eitt af öflugri skipum flotans
Þorsteinn var smíðaður í Noregi árið 1988 en Samherji keypti skipið 1995. Eftir viðamiklar breytingar sem ráðist var í á síðasta ári, þar sem skipið var m.a. lengt, er það rúmir 70 metrar á lengd, 1.819 brúttótonn og þar með í hópi öflugri skipa íslenska flotans. Þorsteinn getur veitt með botntrolli, flottrolli eða nót. Þó að skipið stundi fyrst og fremst loðnu-, síld- og kolmunnaveiðar hefur það áður m.a. fryst rækju, bolfisk og grálúðu. Skipstjóri er Hörður Guðmundsson.