Nokkrar skemmdir urðu á bryggjunni í Neskaupstað í gærmorgun þegar fjölveiðiskipið Baldvin Þorsteinsson EA sigldi á bryggjukantinn. Peran á skipinu rakst í gegnum stálþilið svo gat kom á það og annar bryggjukanturinn brotnaði. Engar skemmdir urðu hins vegar á skipinu en óhappið má rekja til mannlegra mistaka.Hvorki Guðmundur Helgi Sigfússon, forstöðumaður umhverfissviðs Fjarðabyggðar, né Gísli S. Gíslason, hafnarstjóri í Fjarðabyggð, hafa enn sem komið er treyst sér til að nefna tölur um kostnað við að lagfæra skemmdirnar á höfninni. Sömu sögu er að segja af sérfræðingum þeim sem Samherji hefur fengið til að meta fyrir sig tjónið.
Kafað var niður að skemmdunum í gær en erfitt var að meta þær vegna lélegs skyggnis. Búið er að opna þekjuna á bryggjunni og skoða aðstæður innan við þilið og sérfræðingur frá Siglingamálastofnun er farinn á Neskaupstað til að meta tjónið. Það mun því væntanlega skýrast á morgun hversu mikið tjón er hér um að ræða.
Í fréttum Ríkisútvarpsins og Sjónvarpsins í gær var því haldið fram að tjónið á bryggjunni nemi tugum milljóna króna. Þessi fréttaflutningur er einkennilegur í ljósi þess að ekkert liggur fyrir um það á þessari stundu hversu mikið tjónið er. Flest bendir hins vegar til þess að tjónið sé mun minna en fréttir ríkisfjölmiðlanna gefa til kynna.