Dómur fallinn í máli norska ríkisins gegn Samherja

Dómur hefur verið kveðinn upp í Gulaþingsrétti í Bergen í Noregi þar sem Samherji hf. var dæmdur til að greiða skaðabætur til norska ríkisins að fjárhæð 14 milljónir norskra króna eða jafnvirði  142 milljóna íslenskra króna...
Niðurstaða dómsins kom bæði forsvarsmönnum Samherja og norskum lögfræðingum félagsins mjög á óvart þar sem forsvarsmenn norsku skipasmíðastöðvarinnar voru  sýknaðir í apríl á síðasta ári í sama máli og taldi ríkissaksóknari Noregs ekki ástæðu til að áfrýja þeirri niðurstöðu.  Samherji hf. hefur í samráði við lögfræðinga sína í Noregi ákveðið að áfrýja dómnum til hæstaréttar Noregs og kemur til með að senda frá sér yfirlýsingu um málið þegar búið er að fara betur yfir niðurstöðu dómsins.  

Um er að ræða mál vegna samnings Samherja hf. árið 1997 við norska skipasmíðastöð, Th. Hellesöy Skipsbyggeri, um smíði á Vilhelm Þorsteinssyni EA-11.  Samherji staðfesti samninginn með greiðslu til skipasmíðastöðvarinnar í desember 1997.  Skipasmíðastöðin varð gjaldþrota og höfðuðu stjórnvöld í Noregi mál, bæði gegn forsvarsmönnum Hellesöy og Samherja vegna ríkisstyrks sem úthlutað hafði verið til stöðvarinnar. 

Norsk stjórnvöld kröfðust skaðabóta á þeirri forsendu, að samningur um smíði skipsins hafi, vegna fyrirvara í samningsviðauka, ekki tekið gildi fyrr en þremur mánuðum eftir gerð hans og í raun ekki verið bindandi gagnvart styrkjareglum sem þá voru í gildi.  Sýknudómur í máli ríkisins gegn forsvarsmönnum Hellesöy byggðist hins vegar á því að þessi sami samningur hafi verið gildur og innan þess tímaramma sem styrkjareglur leyfðu. 

Forráðamenn Samherja telja að fyrirtækið hafa verið dæmt vegna máls sem því er í raun ekki viðkomandi.  Samherji hafi hvergi komið að málum sem vörðuðu ríkisstyrk til smíði skipsins og norski ríkisstyrkurinn hafi ekki runnið til Samherja að einu né neinu leyti og mun þ.a.l. áfrýja dómnum til Hæstaréttar í Noregi.