Dómur í máli norska ríkisins gegn Samherja hf.

Dómur var í dag kveðinn upp í héraðsdómi á eynni Storð í Noregi þar sem Samherji hf. var dæmdur til að greiða skaðabætur til norska ríkisins að fjárhæð 10 milljónir norskra króna, jafnvirði 117 milljóna íslenskra króna, fyrir að hafa sýnt gáleysi, - þó ekki stórkostlegt gáleysi - í samskiptum við skipasmíðastöðina Th. Hellesöy í Noregi og hafa þannig átt þátt í að ríkissjóður Noregs styrkti skipasmíðastöðina ranglega vegna smíði íslenska fjölveiðiskipsins Vilhelms Þorsteinssonar EA 11.

Samherji hefur ákveðið að áfrýja dómi þessum. Gera má ráð fyrir að málið verði tekið til meðferðar fyrir í Gulaþingsrétti í Bergen á fyrri hluta næsta árs. Dómsstigin í Noregi eru þrjú.

Samherji hf. telur rétt að eftirfarandi komi fram:

Forráðamenn Samherja hófu 1995 undirbúning að hönnun og smíði fjölveiðiskips. Niðurstaðan varð sú seint á árinu 1997 að semja um verkið við norska skipasmíðastöð, Th. Hellesöy Skipsbyggeri, fyrir atbeina söludeildar samtaka norskra skipasmíðastöðva. Norskur skipasmíðaiðnaður hafði um árabil notið ríkisstyrkja og vitað var að breytinga var að vænta á þessu niðurgreiðslukerfi um áramótin 1997/98. Þannig lá fyrir að skipasmíðastöðvar þar í landi hefðu ekki sömu möguleika til opinbers stuðnings árið 1998 og áður. Skipasmíðastöðvar í Noregi og samtök þeirra lögðu því ofurkapp á það síðari hluta árs 1997 að afla verkefna um allan heim og skrifa undir samninga þar að lútandi fyrir áramótin. Þetta sést best á því að í opinberum norskum gögnum kemur fram að gerðir hafi verið samningar um ný verkefni í skipasmíðaiðnaði fyrir 145 milljarða íslenskra króna árið 1997 en fyrir aðeins um 45 milljarða króna árið 1998, eftir að styrkjakerfinu hafði verið breytt.

Ástæðan fyrir því að Samherji lét smíða fjölveiðiskipið Vilhelm Þorsteinsson EA- 11 í Noregi, en ekki annars staðar, var einmitt sú að skipasmíðastöðin umrædda bauð verð sem var samkeppnishæft á við það sem ýmsir keppinautar buðu í öðrum löndum – vegna ríkisstuðningsins við skipasmíðaiðnaðinn. Án þessa stuðnings hefði aldrei komið til álita að smíða skipið í Noregi.

Samherji gerði samninga við norsku fyrirtækin í góðri trú um að viðsemjendum væri treystandi til að fara rétt með mál sín gagnvart yfirvöldum Noregs – enda kom Samherji ekki þar við sögu. Það kom því forráðamönnum Samherja í opna skjöldu að fyrirtækið skyldi vera lögsótt vegna máls sem því er í raun ekki viðkomandi.

Stjórnvöld í Noregi höfðuðu málið og kröfðust skaðabóta að fjárhæð rúmlega 14 milljóna króna, á þeirri forsendu að samningur um smíði skipsins hafi, vegna fyrirvara í samningsviðauka, ekki tekið gildi fyrr en þremur mánuðum eftir gerð hans.

Vegna þessarar dómsniðurstöðu vill Samherji sérstaklega taka fram eftirfarandi:

1. Samherji hf. kom hvergi að málum sem vörðuðu ríkisstyrk til smíði skipsins. Þau samskipti voru öll á milli skipasmíðastöðvarinnar og samtaka norskra skipasmíðastöðva annars vegar og ríkisstofnunarinnar Exportfinans, sem fór með málið á vegum stjórnvalda Noregs, hins vegar.

2. Eina samband Samherja við norska ríkið vegna smíði skipsins var yfirlýsing sem undirrituð var, þess efnis, að nýja skipið yrði ekki notað til veiða úr fiskistofnum sem ekki væri samkomulag um nýtingu á, og að samningur um byggingu skipsins hefði öðlast gildi við undirritun.

3. Samherji staðfesti samninginn með því að greiða skipasmíðastöðinni rúmlega 8 milljónir norskra króna í desember 1997.

4. Norskur skipasmíðaiðnaður leitaði stíft eftir verkefnum af þessu tagi um allan heim og í lögum í Noregi var kveðið á um opinberan stuðning til atvinnugreinarinnar til að jafna samkeppnisstöðu hennar gagnvart erlendum keppinautum.

5. Norski ríkisstyrkurinn rann ekki til Samherja að einu né neinu leyti. Það er staðfest í dómi þingréttarins í dag. Samherji samdi hins vegar um verð sem skipasmíðastöðin bauð eftir að hún hafði gert ráð fyrir ríkisstyrk sér til handa vegna þessa verkefnis. Samherji hf. hafði því engan fjárhagslegan ávinning af styrkveitingunni. Styrkurinn rann til norsks iðnaðar.

6. Lögmaður stjórnvalda í Noregi hafði uppi kröfur á hendur Samherja hf. þar sem skipasmíðastöðin var orðin gjaldþrota. Hann byggði á því fyrir rétti, að Samherji og norska skipasmíðastöðin hefðu gert samningsviðauka um leið og upphaflegur verksamningur var gerður. Þess vegna hefði upphaflegi samningurinn í raun ekki verið bindandi gagnvart styrkjareglum sem þá voru í gildi, þótt hann hefði öðlast fullt gildi síðar. Undir þetta er tekið að nokkru í forsendum dómsins í dag. Lögmaður Samherja og fulltrúar skipasmíðastöðvarinnar vísuðu þessum rökum á bug fyrir rétti og Samherji ítrekar það sjónarmið sitt að upphaflegi samningurinn hafi verið fullgildur og bindandi. Fyrirtækið hafi sjálft staðfest það með staðfestingargreiðslu upp á rúmar 8 milljónir norskra króna í lok árs 1997 og með smíði skipsins í Noregi. Í samningsviðaukanum var hins vegar alþekktur fyrirvari um að tæknilegri útfærslu væri ekki lokið, enda kom á daginn að upphafleg hönnun skipsins var ófullnægjandi hvað stöðugleika varðaði og breikka varð skipið til að ráða bót á því.

7. Eftir að skipasmíðastöðin Th. Hellesöy varð gjaldþrota kom til greina að Samherji léti ljúka við smíði fjölveiðiskipsins í Póllandi, en skrokkur skipsins var smíðaður þar samkvæmt samningi við Th.Hellesöy. Samtök norskra skipasmíðastöðva sóttu hins vegar afar fast að Samherji færði samninginn til annarrar skipasmíðastöðvar í Noregi og beittu sér fyrir því við norsk stjórnvöld, að hún fengi að yfirtaka styrkinn. Jafnframt voru boðnar hagstæðar lánafyrirgreiðslur, að hluta til með norskri ríkisábyrgð, til að greiða fyrir því að Norðmenn misstu ekki verkefnið úr landi. Skipið var fullbyggt í Noregi hjá skipasmíðastöðinni Kleven, sem fékk greiddar tæpar 15 milljónir norskra króna í styrki vegna verkefnisins.

Fréttatilkynning frá Samherja hf. þriðjudaginn 25. júní 2002.  Nánari upplýsingar gefur Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri í síma 460 9000.