Dráttarskip á leiðinni frá Noregi

Björgunaraðgerðir á Baldvin Þorsteinssyni EA 10:

Samherji hf. og Tryggingarmiðstöðin eru búin að semja við fyrirtækið Seabrokers Chartering AS í Noregi um leigu á m/s Normand Mariner, sem er sérhæft dráttarskip í eigu Solstad Supply. Skipið lagði af stað frá Bergen kl. 10 fh að ísl. tíma og siglir á 15 mílna hraða. Áætlaður siglingatími til Íslands er um tveir og hálfur sólarhringur.

Einnig hefur verið samið um leigu á 2500 m langri dráttartóg, sem þolir 800 tonna átak. Þetta er tóg, sem flýtur á sjónum og er í 500 m lengjum, sem lásaðar eru saman, með sérstökum búnaði. Tógin er nú þegar komin um borð í dráttarskipið.

Skipið Normand Mariner er af gerðinni Ulstein A101, sem er 82 m langt og 20 m breitt skip með samtals 23.478 hestafla vélar, sem gefa 282 tonna togátak frá skúfum skipsins. Skipið er einnig búið tveimur hliðarskrúm að framan 1100 kW og 1200 kW, svo og tveimur að aftan hvor um sig 880 kW. Skipið er með tvær dráttarvindur, eina 400 tonna og aðra 500 tonna, þrjá þilfars krana, tvær hjálparvindur hvor með um 170 tonna átaki og ýmsan annan sérhæfðan búnað. Skipið er búið svokölluðu "Dynamic Poistion System" stýrikerfi, sem heldur skipinu stöðugu á ákveðnum stað.

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir þá hafa talið rétt að vinna að fleiri en einni aðgerðaráætlun og er leiga dráttarskipsins ein af þeim. “Áætlunin sem verið er að vinna að í samráði við Landhelgisgæsluna er óbreytt og hefur leigan á þessu dráttarskipi ekki áhrif á hana” segir Þorsteinn Már.