Þjóðarátaki um nýsköpun er m.a.ætlað að stuðla að markvissum vinnubrögðum við virkjun nýrra hugmynda í atvinnulífi og laða fram áhugaverð verkefni. Veitt eru vegleg peningaverðlaun fyrir bestu viðskiptaáætlanirnar sem berast í keppnina. Fjórar áætlanir verða síðan valdar til að keppa fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni sem haldin er á þessu sviði. Þátttakendum gefst einnig kostur á að senda inn stutta lýsingu á hugmynd að nýsköpunarverkefni. Hugmyndarlýsing getur ekki unnið til verðlauna í landskeppninni en kemur til álita við val á fulltrúum Íslands í Evrópukeppnina. Nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í atvinnulífi hefur mikil áhrif á hagvöxt og þar með lífskjör almennings. Samkvæmt niðurstöðum nýlegrar rannsóknar er starfsemi frumkvöðla umtalsvert meiri á Íslandi en í öðrum Evrópuríkjum. Án efa er góð útkoma Íslands meðal annars að þakka markvissri viðleitni fyrirtækja og stofnana hér til að örva nýsköpun með verkefnum á borð við þjóðarátakið sem nú er efnt til. Aðstandendur átaksins telja mikilvægt að haldið verði áfram á sömu braut til að stuðla að aukinni fjölbreytni í atvinnulífi landsins og bæta stöðu þess í ört vaxandi alþjóðlegri samkeppni.
Þetta er í fjórða sinn sem efnt er til samkeppni um viðskiptaáætlanir hér á landi. Að þessu sinni er keppnin viðameiri en áður þar sem aðstandendum og styrktaraðilum hennar hefur fjölgað miðað við fyrri ár. Að þjóðarátakinu standa Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Morgunblaðið, KPMG, Háskólinn í Reykjavík, Íslandsbanki hf. og Byggðastofnun. Tveir síðasttöldu aðilarnir eru nýir í hópnum en að auki hafa fjögur af stærstu fyrirtækjum landsins; Eimskip hf., Nýherji hf., Landssíminn og Samherji hf., ákveðið að gerast sérstakir styrktaraðilar átaksins.
Stefnt er að mikilli og útbreiddri þátttöku og munu starfsmenn átaksins halda námskeið víða um land til að kynna það. Reynt er að höfða sérstaklega til starfandi fyrirtækja sem t.d. hyggjast hasla sér völl á nýju sviði, með þróun nýrrar vöru eða þjónustu, eða með því að hefja sókn inn á nýja markaði. Lokafrestur til að skila inn viðskiptaáætlun er 31. maí árið 2003 en úrslit keppninnar verða kynnt í september það ár.
______
Nánari upplýsingar veitir G. Ágúst Pétursson, verkefnisstjóri þjóðarátaksins, í síma 896 3055 (agustp@centrum.is) Sjá einnig heimasíðu www.nyskopun.is