Allir starfsmenn í fiskvinnsluhúsi Útgerðarfélags Akureyringa þekkja Patcharee Srikongkaew, sem fluttist frá Thailandi til Akureyrar fyrir þrjátíu árum síðan. Hún byrjaði strax að vinna hjá ÚA og segist ekki detta til hugar að skipta um starfsvettvang. „Ég elska ÚA og ég elska Akureyri,“ segir Patcharee, sem kölluð er Pat.
„Já, ég man mjög vel eftir því þegar ég kom til Akureyrar, það var 16. janúar 1991 og veðrið var brjálað, rok og snjókoma. Ég var í góðri vinnu í Thailandi og sagði íslenska manninum mínum að ég vildi vera komin með vinnu á Íslandi fyrir flutninginn og því var sótt um fyrir mig hjá Útgerðarfélagi Akureyringa, sem þá var í eigu bæjarins. Ég var ráðin og hérna er ég enn og er ekkert á förum. En í upphafi sagði ég stundum við sjálfa mig; ó Guð hvert er ég komin,“ segir Patcharee.
Strax vel tekið
„Nei, ég vissi í raun og veru akkúrat ekkert um Ísland og þegar ég var að segja vinum mínum frá fyrirhuguðum flutningum, var Íslandi jafnvel ruglað saman við Írland. Auðvitað var þetta mikil breyting, mér fannst svo fá hús hérna enda mjög þéttbýlt í Thailandi og svo er gríðarlegur munur á veðráttunni og menningunni. En mér var strax vel tekið og það hjálpaði okkur mikið. Börnin þrjú komu svo þremur til fjórum árum síðar.“
Miklar tæknibreytingar
Patcharee talar lýtalausa íslensku, enda segist hún líta á sig sem Íslending en undirstrikar að uppruninn verði auðvitað alltaf Thailand.
„Jú jú, það hafa orðið miklar breytingar á þessum þremur áratugum, núna er vinnslan mjög tæknivædd og sjálfvirknin mikil. Störfin eru yfirleitt líkamlega léttari og það er jákvætt. Þegar ég byrjaði að vinna í ÚA vissi ég sama og ekkert um fisk og fiskvinnslu en núna tel ég mig vita ýmislegt“ segir hún spurð um breytingar í fiskvinnslunni.
Hlakkar til á hverjum morgni
„Starfsdagurinn hefst klukkan átta morgnana. Ég vakna venjulega klukkan sex og mig hlakkar alltaf til að fara í vinnuna, enda líður mér mjög vel hérna. Starfsfólkið er frábært, yfirmennirnir góðir og fyrirtækið gerir vel við okkur og aðbúnaðurinn er góður. Þess vegna er alltaf tilhlökkun að fara í vinnuna.“
Kalt land og hlýlegt fólk
„Nei, ég er sko ekkert á förum, hvorki frá Akureyri eða ÚA. Vissulega er stundum ískalt hérna á Íslandi, en fólkið er hlýlegt,“ segir hin brosmilda Patcharee Srikongkaew.