Aðstæður fólks í Úkraínu eru afar bágbornar eftir rúmlega tveggja ára linnulaus stríðsátök við Rússa. Mannfallið er gríðarlegt, talið er að um sex milljónir íbúa hafi flúið til annarra ríkja í Evrópu og að um fjórar milljónir séu á vergangi innan eigin ríkis. Eyðileggingin er mikil og að þola stöðugar sprengju- og loftskeytaárásir eru óumflýjanleg örlög allra þeirra sem flosnað hafa upp.
Farsælt samstarf Universal Fish Company og Ice Fresh Seafood
Stærsti viðskiptavinur Ice Fresh Seafood í Úkraínu er Universal Fish Company (UFC). Stríðið hefur sett stórt strik í reikning fyrirtækisins, sem rak tvær stórar verksmiðjur, glæsilegar fiskverslanir og vinsæla veitingastaði í landinu.
Marina Kaba deildarstjóri innflutningsdeildar UFC hefur starfað hjá fyrirtækinu í fimmtán ár. Hún þekkir því vel til viðskiptanna við Ice Fresh Seafood og þekkir Ísland ágætlega.
„Ice Fresh Seafood hefur sýnt okkur mikinn velvilja og hjálpað okkur við að reka fyrirtækið í þessum ömurlegu aðstæðum. Fyrir stríð voru starfsmenn um tvö þúsund en í dag eru þeir um eitt þúsund, sem segir sína sögu af ástandinu. Önnur verksmiðja okkar var sprengd í loft upp og hina verksmiðjuna, sem er í höfuðborginni Kiev, er ekki hægt að keyra á fullum afköstum. Þá höfum við þurft að loka verslunum og veitingastöðum, meðal annars vegna þess að fólk hefur þurft að flýja, karlmenn hafa verið kvaddir í herinn og konur hafa neyðst til að yfirgefa landið,“ segir Marina.
Mikilvægur stuðningur
Hún segir að UFC hafi reynt eftir megni að aðstoða starfsfólk við að finna vinnu í öðrum löndum.
„Þrátt fyrir öll þessi áföll er veltan núna 70 til 80% miðað við veltuna fyrir stríð, enda höfum við fengið góðan og ómetanlegan stuðning frá erlendum viðskiptavinum. Stuðningurinn frá Ice Fresh Seafood, sem sannarlega hefur bjargað og gert mögulegt að endurreisa starfsemina, verður seint fullþakkaður.“
Loftvarnarflautur hluti daglegs lífs
Höfuðstöðvar UFC eru í Kiev en skrifstofa Marinu er í Lviv sem er tiltölulega friðsamt svæði miðað við stöðuna í austur hluta landsins.
„Ég fer á skrifstofuna á hverjum virkum degi og við getum alla daga búist við að heyra í loftvarnarflautum. Í höfuðborginni þarf fólk jafnvel að fara í öruggt skjól á hverjum degi. Hérna á skrifstofunni er sérstakur starfsmaður sem hefur það hlutverk að fylgjast með okkar fólki, svo sem hermönnum og fjölskyldum þeirra. Við reynum eftir fremsta megni að fylgjast með og vera í sambandi við okkar fólk.“
Níu klukkustunda bið við landamærin
Marina sótti í vor alþjóðlegu sjávarútvegssýninguna í Barcelona á Spáni og hitti þar meðal annars starfsfólk Ice Fresh Seafood. Ferðalagið til Spánar var ekki einfalt.
„Reglurnar eru strangar varðandi ferðalög. Bæði innan- og utanlands flug liggja niðri og karlar mega ekki yfirgefa landið nema hafa viðurkenndar ástæður. Konum er hins vegar heimilt að fara úr landi, nema þeim sem starfa við heilbrigðisþjónustu. Þegar fólk fer úr landi er leiðin í gegnum Pólland. Við landamærin getur biðin verið ansi löng. Þegar ég fór til Barcelona tók biðin níu klukkustundir.“
Kærkomin hvíld í friðsömu landi
Hún segir að viðbrigðin við að koma frá stríðshrjáðu landi til Spánar hafi verið mikil.
„Já, sannarlega. Í Barcelona eru engar sívælandi loftvarnarflautur, sem var mikil hvíld í nokkra daga. Almenningur virtist hamingjusamur og stríðsátök ekki ofarlega í hugum fólks, sem getur setið á kaffihúsum án þess að hafa áhyggjur af stríði og afleiðingum þess.
Hins vegar komst ég ekki hjá því að hugsa stöðugt til fólksins heima, flestir í minni fjölskyldu búa í vesturhluta landsins þannig að við teljumst nokkuð örugg miðað við fólkið í austurhlutanum.“
Dáist að dugnaði og aðlögunarhæfni íbúanna
Jóhannes Már Jóhannesson sölu- og markaðsstjóri Ice Fresh Seafood hefur í mörg ár verið í sambandi við kaupendur í Úkraínu. Hann segir erfitt að setja sig inn í aðstæður fólks en að sama skapi aðdáunarvert að fylgjast með samtakamætti og þrautseigju íbúa Úkraínu.
„Ég held að það sé ekki nokkur leið að ímynda sér hvað fólk á stríðshrjáðum svæðum er að upplifa. Það er ekki hægt annað en að dást að dugnaði þessa fólks og aðlögunarhæfni. Það er í raun illskiljanlegt hversu vel viðskiptin hafa gengið þrátt fyrir margar hindranir. Það er einlæg ósk okkar að þessu linni sem allra fyrst þannig að þetta góða fólk geti aftur lifað eðlilegu lífi.“
Kær kveðja til Íslands
Marina segist óska þess af heilum hug að stríðinu ljúki sem fyrst.
„Stríð eru alltaf óréttlát, sama hvernig litið er á hlutina og á Spáni varð mér oft hugsað til óréttlætisins sem við búum við. Ég óska engum þess að lenda í þeim hörmungum sem íbúar Úkraínu hafa mátt þola. Ég sendi öllum vinum mínum á Íslandi innilegar kveðjur með þökkum fyrir þétt og einlægt samstarf,“ segir Marina Kaba deildarstjóri innflutningsdeildar Universal Fish Company.