Ekkert athugavert við verðlagningu í viðskiptum Samherja við Seagold Ltd.

-samkvæmt úttekt bresku endurskoðunarstofunnar Baker Tilly LLP

 

  • Vegna ásakana Seðlabanka Íslands um undirverðlagningu á sölu afurða Samherja til skyldra aðila lét Seagold Ltd, dótturfélag Samherja í Bretlandi, gera óháða greiningu og úttekt á rekstri fyrirtækisins.
  • Sérfræðingar frá endurskoðunarstofunni Baker Tilly í Bretlandi (www.bakertilly.co.uk) voru fengnir til verksins. Um er að ræða eitt af stærri fyrirtækjum heims á sínu sviði en hjá Baker Tilly International starfa um 25.000 manns.
  • Afdráttarlaus niðurstaða þessarar úttektar var sú að ekkert væri við þessi viðskipti að athuga, viðskipti Seagold Ltd. við tengda aðila væru eins og um óskylda aðila væri að ræða. Því væri engin þörf á að breyta þar nokkru, hvorki verðlagningu né aðferðum við verðlagningu.
  • Samherji hefur áður birt niðurstöður IFS-Greiningar sem eru á sömu lund, ekkert er við verðlagningu á afurðum Samherja að athuga.
  • Á því tímabili sem rannsókn Seðlabanka Íslands nær yfir flutti Samherji/Ice Fresh Seafood út afurðir fyrir alls 113 milljarða króna. Af eigin framleiðslu voru seldar afurðir til tengdra aðila fyrir 15,4 milljarða króna en þar af námu viðskipti við Seagold 14,3 milljörðum króna eða um 93%.
  • Niðurstaða úttektar Baker Tilly sem og niðurstöður IFS-Greiningar benda eindregið til þess að fullyrðingar Seðlabanka Íslands um undirverðlagningu Samherja til tengdra félaga séu úr lausu lofti gripnar.

 Ágætu starfsmenn Samherja.

Enn og aftur sjáum við okkur knúna til að gera ykkur grein fyrir gangi mála í rannsókn Seðlabanka Íslands á starfsemi Samherja. Þrátt fyrir þá staðreynd að allar fullyrðingar yfirmanna bankans um meinta undirverðlagningu Samherja á afurðum til tengdra aðila hafi verið hraktar, heldur bankinn sínu striki og neitar að gefa nokkuð upp um gang rannsóknarinnar eða hvenær henni muni ljúka.

Nú liggja fyrir niðurstöður nýrrar úttektar sem sýnir að ásakanir Seðlabanka Íslands eiga ekki við nein rök að styðjast.

 

Óskað eftir úttekt á rekstri Seagold Ltd.

Seðlabanki Íslands hefur ítrekað fullyrt fyrir dómstólum að starfsmenn hans hafi fundið gögn sem styðji fullyrðingar bankans um undirverðlagningu Samherja á fiski til tengdra aðila. Eftir að fullyrðingar Seðlabankans um undirverðlagningu  á karfa höfðu verið hraktar og í ljósi þess að 93% af sölu Samherja á Íslandi til tengdra aðila eru til Seagold, ákváðu stjórnendur Seagold að óska eftir greiningu á viðskiptum félagsins við Samherja/Ice Fresh Seafood og úttekt á rekstri fyrirtækisins. Sérfræðingar frá endurskoðunarstofunni Baker Tilly í Bretlandi voru fengnir til að gera þessa úttekt.

Markmið greiningarinnar var að kanna hvort viðskipti Seagold við tengda aðila væru á „armslengdar-grundvelli“ eins og það er orðað í Englandi, það er að viðskiptin væru eins og um ótengda aðila væri að ræða. Um er að ræða greiningu sem er stöðluð og er unnin í samræmi við þá aðferðafræði sem nota á samkvæmt leiðbeiningum HM Revenue & Customs (breskra skattayfirvalda) og OECD.

Rekstur Seagold Ltd. var kannaður sem og öll viðskipti þess. Framkvæmdin var viðamikil og fól meðal annars í sér að:

  • Viðtöl voru tekin við stjórnendur og lykilstarfsmenn Seagold Ltd. þar sem aflað var upplýsinga um reksturinn, viðskipti við tengda aðila og hvernig þau viðskipti væru verðlögð.
  • Farið var yfir ársreikninga og aðrar fjárhagsgreiningar.
  • Samantekt var gerð á viðskiptum við tengda aðila.
  • Samanburðarhæf viðskipti milli ótengdra aðila voru könnuð til að afla upplýsinga um verðlagningarviðmið sem borin yrðu saman við verðlagningu Seagold Ltd.
  • Greining og val á verðlagningaraðferðum, samþykktum af OECD, var framkvæmd til að bera saman við þær aðferðir sem beitt er við verðlagningu af Seagold Ltd.

 

Afdráttarlaus niðurstaða Baker Tilly: Ekkert athugavert

Niðurstaða skýrslu Baker Tilly var að viðskipti Seagold Ltd. með sjávarafurðir við tengda aðila væru eins og að um ótengda aðila væri að ræða. Því væri engin þörf á að breyta nokkru; hvorki hvað varðar verðlagningu né verðlagningaraðferðir.

Til marks um það hversu ítarleg greining fór fram af hálfu Baker Tilly má nefna þá einu athugasemd sem gerð var af hálfu endurskoðunarstofunnar um viðskipti milli tengdra aðila. Hún varðaði skiptingu kostnaðar milli erlendra félaga vegna ferðar starfsmanna dótturfélaga Samherja á sameiginlega árshátíð á Íslandi sl. vetur. Athugasemdin fólst í því að Seagold hefði borgað hærra hlutfall af kostnaði ferðarinnar en sem nam starfsmannafjölda félagsins!

Gústaf Baldvinsson framkvæmdastjóri Seagold: Óþolandi að sitja undir þessum ásökunum

„Ég tel mig hafa skilað góðu starfi við að markaðssetja og selja fiskafurðir, m.a. fyrir Samherja, hér á Bretlandseyjum síðastliðin 17 ár. Ég hef lagt metnað minn í að vinna starf mitt vel og af heiðarleika og það hefur aldrei verið gerð athugasemd við uppgjör Seagold af hálfu breskra skattayfirvalda eða annarra stjórnvalda hér. Ég er stoltur af því og ekki síður af því fiskverði sem Seagold hefur skilað Samherja og öðrum íslenskum félögum í gegnum árin. Nýleg úttekt IFS-Greiningar á fiskútflutningi Íslendinga og þær athuganir sem ég og starfsmenn mínir í Englandi höfum gert, sýna að ásakanir Seðlabanka Íslands um að við höfum keypt afurðir af Samherja á undirverði eru hreinn uppspuni.

Til að taka af allan vafa í þessu máli, bæði gagnvart viðskiptavinum okkar erlendis og birgjum á Íslandi og víðar, létum við gera óháða úttekt á rekstri fyrirtækisins, þar með talið verðlagningu þess til tengdra sem ótengdra aðila. Niðurstaða Baker Tilly gæti ekki verið skýrari: Viðskipti Seagold Ltd. með sjávarafurðir eru eins við tengda aðila og ótengda! Því telur þetta óháða endurskoðunarfyrirtæki enga þörf á að við breytum verðlagningaraðferðum okkar eða nokkru öðru. Athugunin leiddi enn fremur í ljós að verðlagning okkar er í fullu samræmi við lög og reglur í Bretlandi og Evrópusambandinu er varða viðskipti tengdra aðila. Við munum kynna þessa afdráttarlausu niðurstöðu fyrir  viðskiptavinum okkar.

Það er vægast sagt furðulegt að Seðlabanki Íslands hefur ekki enn tilkynnt stjórnendum Seagold Ltd. að félagið sæti rannsókn. Slík vinnubrögð eru í hæsta máta ófagleg og það kæmi ekki á óvart að þau brytu beinlínis í bága við lög. Að þurfa að sitja undir slíkum ásökunum frá stofnun á borð við Seðlabanka Íslands í bráðum heilt ár án þess að fá nokkuð að vita er algjörlega óviðunandi og gæti ekki gerst hér í Bretlandi,“ segir Gústaf Baldvinsson, framkvæmdastjóri Seagold Ltd.

Rangfærslur og tilhæfulaus árás

Þessi niðurstaða bresku endurskoðunarstofunnar staðfestir enn og aftur að yfirmenn Seðlabanka Íslands hafa ítrekað farið með rangfærslur í tilhæfulausri árás sinni á Samherja. Dómstólar hafa staðfest að verðútreikningar á karfa, sem lágu að baki húsrannsóknarheimildinni, voru rangir. Yfirmenn bankans hafa síðan ítrekað látið lögmann sinn fullyrða fyrir rétti að bankinn hafi ný gögn í fórum sínum sem staðfesti undirverðlagningu Samherja til tengdra félaga. 

Skýrsla IFS-Greiningar, sem við höfum birt helstu niðurstöður úr, og nú skýrsla Bakers Tilly  staðfesta það sem við höfum alltaf sagt: Samherji hefur EKKI selt fisk á undirverði.

Með bestu kveðju,

Þorsteinn Már Baldvinsson

Kristján Vilhelmsson

Til nánari upplýsingar um Seagold Ltd.:

  • Seagold Ltd. var stofnað 1. maí 1996 með það að markmiði að vinna að markaðssetningu, sölu og dreifingu sjávarafurða Samherja á Bretlandseyjum. Með tilkomu þess var stefnt að því að komast nær viðskiptavinum í Englandi og vera í betri tengslum við þá en unnt væri í gegnum söluskrifstofu á Íslandi. Með þeim hætti yrði þjónustustigið hærra og betri upplýsingar fengjust til ákvörðunartöku á Íslandi um framleiðsluna. Langstærsti eigandi Seagold Ltd. er Samherji hf.
  • Frá stofnun árið 1996 og til þessa dags hefur Seagold Ltd. selt sjávarafurðir fyrir 700 milljónir sterlingspunda, eða um 150 milljarðar íslenskra króna, miðað við núverandi gengi.
  • Á því tímabili sem rannsókn Seðlabanka Íslands nær yfir flutti Samherji/Ice Fresh Seafood út afurðir fyrir alls 113 milljarða króna. Af eigin framleiðslu voru seldar afurðir til tengdra aðila fyrir 15,4 milljarða króna eða um 13,6%. Þar af námu viðskipti við Seagold Ltd. 14,3 milljörðum króna, sem er 12,6% af útflutningi Samherja og til Ice Fresh Gmbh 1,1, milljarði króna, eða 1%.
  • Á því tímabili sem rannsókn Seðlabanka Íslands nær til nam velta Seagold Ltd. um 216 milljónum sterlingspunda. Þar af var 91 milljón sterlingspunda vegna viðskipta við Samherja/Ice Fresh Seafood eða 42%.
  • Á fjögurra ára tímabili, 2008-2011, nam hagnaður Seagold Ltd. 1,5 milljónum sterlingspunda fyrir skatta og 1,0 milljón punda eftir skatta, sem er um 0,35% af veltu félagsins á umræddu tímabili.
  • Gústaf Baldvinsson hefur verið framkvæmdastjóri Seagold Ltd. frá upphafi en hann hefur verið búsettur í Hull á Englandi frá árinu 1986.

 

 Seagold_office

Skrifstofur Seagold Ltd. í Englandi