Eldsvoði um borð í Akureyrinni


Eldur braust út í togaranum Akureyrinni EA 110 laugardaginn 27.maí sl. með þeim hörmulegu afleiðingum að tveir skipverjar létust og 6 skipverjar fengu snert af reykeitrun.  Þyrla Landhelgisgæslunnar kom til aðstoðar ásamt mönnum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og voru skipverjarnir 6 fluttir í land með þyrlunni.  Eftir að ráðið var niðurlögum eldsins var skipinu siglt til lands fyrir eigin vélarafli.  Skipið var statt 75 mílur vestur af Látrabjargi og voru 18 menn um borð.

 

Við rannsókn á eldsupptökum kom í ljós að eldur kviknaði út frá rafmagni í ljósabekk sem staðsettur var í frístundarými skipsins.  Ljóst er að skipverjar brugðust hárrétt við og unnu stórkostlegt þrekvirki að ná að slökkva eldinn við þessar aðstæður.

Samherji hf. og áhöfn Akureyrinnar þakka af alhug, öllum þeim sem að björgunarstarfinu komu, ómetanlega hjálp og aðstoð við þessar erfiðu aðstæður.  Einnig þökkum við innilega fyrir þann hlýhug sem okkur hefur verið sýndur vegna þessa hörmulega slyss.