Ríkisútvarpið greindi í gær frá rannsókn sem nú stendur yfir í Noregi á viðskiptaháttum norska bankans DNB. Félög tengd Samherja voru á ómaklegan hátt gerð að aðalatriði í þessum fréttaflutningi. Þá endurflutti Ríkisútvarpið enn á ný rangfærslur sem varða félagið Cape Cod FS.
DNB bankinn hefur verið til rannsóknar, bæði af norska fjármálaeftirlitinu Finanstilsynet og af Økokrim. Mikið hefur verið undir í þessum rannsóknum, m.a. varnir bankans gegn peningaþvætti. Í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi var hins vegar eingöngu fjallað um viðskipti DNB við félög tengd Samherja. Virðist þetta hafa verið gert til að vekja þau hughrif að viðskipti við þessi félög séu eina ástæða þess að bankinn sé til rannsóknar. Verður þetta að teljast býsna óheiðarleg framsetning af hálfu Ríkisútvarpsins.
Greiðslur til skipverja gerðar tortryggilegar
Eitt af því sem Ríkisútvarpið sá ástæðu til að fjalla um enn einu sinni í gærkvöldi eru greiðslur af bankareikningum í DNB í eigu félaga sem tengjast Samherja til Cape Cod FS. Eins og margoft hefur komið fram var eini tilgangur félagsins að annast greiðslur til skipverja á skipum í útgerðinni í Namibíu. Voru því allar greiðslur til Cape Cod FS inntar af hendi til að tryggja að erlendir skipverjar fengju greitt á réttum tíma, sem var flókið vegna gjaldeyrishafta sem eru við lýði í Namibíu. Fyrirkomulagið var útskýrt í myndbandi sem Samherji lét framleiða og birti fyrr á þessu ári.
Samherji hvorki átti né stýrði Cape Cod FS því eigandi 100% hlutafjár var áhafnarleigan JPC Shipmanagement sem er í eigu þýskra einstaklinga. Cape Cod FS var með skattalega heimilisfesti á Kýpur en af því félagið var skráð á Marshall-eyjum reynir Ríkisútvarpið ítrekað að gefa í skyn að einhverjar greiðslur hafi farið til Marshall-eyja, sem er ekki raunin. Þetta sætir nokkurri furðu í ljósi þess að Samherji hefur þrívegis áður þurft að leiðrétta fréttaflutning um félagið Cape Cod FS.
„Það skiptir engu máli hversu oft við leiðréttum þessar rangfærslur um Cape Cod. Þær skila sér aldrei í fréttir Ríkisútvarpsins og fréttastofan gerir greiðslur til skipverja ítrekað tortryggilegar. Það er eitt að fara með rangfærslur einu sinni en að endurflytja þessar sömu rangfærslur ítrekað, eftir að þær hafa verið leiðréttar, staðfestir að menn eru að fara með rangt mál gegn betri vitund,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Nánari upplýsingar veitir:
Margrét Ólafsdóttir
margret@samherji.is