Samherji hefur beint þeim tilmælum til starfsmanna sinna að engar heimsóknir séu leyfðar í starfsstöðvar fyrirtækisins um óákveðinn tíma vegna óvissuástands sem ríkir vegna kórónuveiru, COVID-19.
Þá hefur starfsfólk verið hvatt til þess að draga úr ferðalögum eins og kostur er og sleppa alfarið ferðalögum til skilgreindra áhættusvæða þar sem COVID-19 faraldurinn geisar og smit er talið útbreitt. Er þetta gert í samræmi við tilmæli Embættis landlæknis. Jafnframt hefur Samherji beint þeim tilmælum til starfsmanna að virða fyrirmæli landlæknis um sóttkví ef þeir hafa nýlega verið á skilgreindum áhættusvæðum.
Sextán staðfest smit kórónuveiru hafa nú verið greind hér á landi. Í öllum tilvikum er um að ræða Íslendinga sem höfðu verið á ferðalagi erlendis. Samherji er um þessar mundir að setja upp viðbragðsáætlun í samræmi við tilmæli frá heilbrigðisyfirvöldum ef svo færi að grunur um smit vaknaði meðal áhafna um borð í skipum í útgerðarflota fyrirtækisins. Verður þessi áætlun kynnt fyrir áhafnarmeðlimum um leið og hún liggur fyrir.