Engar lögregluaðgerðir gegn starfsfólki

Namibísk stjórnvöld hafa engar tilraunir gert til að hafa afskipti af núverandi eða fyrrverandi starfsmönnum félaga tengdum Samherja. Hvorki á eigin vegum eða í gegnum samstarf við önnur ríki. Fréttaflutningur um að namibísk stjórnvöld vilji ná tali af nokkrum núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Samherja er því mjög villandi.

Ríkisútvarpið greindi frá því í gær að namibísk löggæsluyfirvöld hefðu reynt um nokkurt skeið að afla upplýsinga um dvalarstað tveggja nafngreindra starfsmanna félaga tengdum Samherja í því skyni að fá þá framselda til Namibíu. Fréttin er byggð á yfirlýsingu namibísks lögreglumanns sem var lögð fram fyrir þarlendan dómstól. Þá voru nokkrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn til viðbótar nafngreindir í fréttinni.

Í yfirlýsingu lögreglumannsins er vitnað til bréfs sem sent var Alþjóðalögreglunni, Interpol en upplýsingar um þetta bréf bárust fyrst fyrir rúmlega hálfu ári. Mikilvægt er að fram komi að enginn af núverandi eða fyrrverandi starfsmönnum Samherja og tengdra félaga hefur verið eftirlýstur af Interpol eða verið á flótta undan réttvísinni, raunar þvert á móti. Hvorki namibísk stjórnvöld né Interpol hafa óskað eftir því að ná tali af umræddum starfsmönnum. Virðist Interpol því ekki hafa á neinn hátt brugðist við áðurnefndu bréfi.

Yfirlýsing lögreglumannsins er jafnframt mjög á skjön við upplýsingar sem félög tengd Samherja hafa fengið frá stjórnvöldum í Namibíu undanfarna mánuði. Enda hafa félögin og fulltrúar þeirra átt náið samráð við þarlend stjórnvöld um að leggja endanlega niður starfsemi sem tengdist útgerð í landinu. Í þessu sambandi vísast til þess að ríkissaksóknari Namibíu aflétti kyrrsetningu togarans Heinaste í fyrradag. Skipið hefur nú verið selt og afhent nýjum eiganda sem hefur endurnefnt það Tutungeni. Hefur skipið haldið til veiða með sömu skipverjum og áður mönnuðu áhöfn þess. Aflétting kyrrsetningarinnar var ávöxtur þríhliða samkomulags milli seljanda skipsins, sem er félag tengt Samherja, kaupanda þess og namibískra stjórnvalda.

Hugleiðingar einstakra lögreglumanna í Namibíu ráða engu um þær heimildir sem gilda almennt um framsal milli ríkja í tengslum við rekstur sakamála. Namibísk yfirvöld hafa engar lagaheimildir til að krefjast framsals yfir íslenskum ríkisborgurum þar sem enginn samningur er til staðar milli ríkjanna um framsalið. Ekkert var vikið að þessu í frétt Ríkisútvarpsins. Þess skal getið að enginn núverandi eða fyrrverandi starfsmanna félaga í samstæðu Samherja hefur réttarstöðu sakbornings í tengslum við rannsókn í Namibíu og enginn þeirra hefur viðhaft háttsemi sem gæti réttlætt það. Ráðagerðir lögreglumannsins sem gerðar voru að fréttaefni eru því tilhæfulausar.

Fulltrúum namibískra stjórnvalda virðist reyndar vera fullkomlega ljóst að þeir munu ekki geta haft afskipti af núverandi eða fyrrverandi starfsmönnum Samherja enda hafa þeir enga tilraun gert til þess að hafa samband við neinn af þessum einstaklingum, fyrirtækið sjálft eða nokkur önnur yfirvöld fyrir þeirra hönd, hvorki á Íslandi eða í öðrum ríkjum, þar sem umræddir starfsmenn hafa verið við störf.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Margrét Ólafsdóttir
margret@samherji.is