Engin störf töpuðust í namibískum sjávarútvegi eftir að félög tengd Samherja hófu þar starfsemi á árinu 2012. Fullyrðingar þess efnis að þúsundir starfa hafi glatast, sem komu fram í fjölmiðlum í gær, eiga ekki við nein rök að styðjast. Um er að ræða sömu rangfærslur og Samherji leiðrétti á síðasta ári.
Félög tengd Samherja tóku eingöngu þátt í uppsjávarveiðum í namibísku efnahagslögsögunni og var þar einkum um að ræða veiðar á hrossamakríl. Árið 2011 var úthlutunarreglum breytt á uppsjávartegundum í Namibíu. Fjórðungur aflaheimilda í uppsjávarfiski var færður til namibískra félaga og einstaklinga, aðallega frá suður-afrískum stórfyrirtækjum. Eftir úthlutun aflaheimilda í hrossamakríl leituðu namibískir aðilar eftir samstarfi við félög tengd Samherja um nýtingu þeirra.
Engin breyting varð á hlutfalli þess afla í uppsjávarfiski sem var frystur úti á sjó milli áranna 2011 og 2012 þegar félag á vegum Samherja hóf starfsemi í Walvis Bay. Af þeirri ástæðu má slá því föstu að fjöldi starfa í veiðum og vinnslu í namibískum sjávarútvegi hafi haldist óbreyttur þótt störfin hafi flust á milli fyrirtækja og skipa eftir breytingar á úthlutun aflaheimilda. Í áhöfnum skipa Samherja var mikill meirihluti skipverjanna frá Namibíu. Sem dæmi voru aðeins fjórir skipverjar með íslenskt ríkisfang í hundrað manna áhöfn togarans Heinaste en aðrir voru frá Namibíu og Austur-Evrópu.
Árið 2013 veiddu félög tengd Samherja um 10% af aflaheimildum í uppsjávartegundum í Namibíu. Þessi staðreynd undirstrikar hversu fjarstæðukennt það er að fullyrða að „þúsundir starfa“ hafi glatast, með hliðsjón af heildarfjölda starfa í namibískum sjávarútvegi. Þá ber að halda því til haga að öll árin, sem félög á vegum Samherja voru í rekstri í landinu, keyptu þau alla þjónustu vegna veiða og vinnslu af namibískum fyrirtækjum. Því glötuðust engin störf vegna aðkeyptrar þjónustu.
Að framansögðu virtu er ljóst að fullyrðingar um að þúsundir starfa hafi tapast í namibískum sjávarútvegi, eftir að félög tengd Samherja hófu þar starfsemi, eru hreinn og klár tilbúningur. Rangfærslur af slíku tagi eru eingöngu settar fram til þess að varpa rýrð á fyrirtækin í samstæðu Samherja og starfsfólk þeirra.