Þrátt fyrir að bankaráð Seðlabankans hafi með alvarlegum hætti sett sérstaklega ofan í við seðlabankastjóra fyrir að tjá sig opinberlega um einstaka mál og aðila heldur hann uppteknum hætti. Nú síðast í sjónvarpsþættinum Eyjunni 23. mars sl. Lét hann ekki þar við sitja heldur setti frétt á heimasíðu Seðlabankans þess efnis morguninn eftir. Líkt og áður fer seðlabankastjóri þar með rangt mál og varpar ábyrgð á því sem miður hefur farið yfir á aðra.
Bankaráði hefur verið legið á hálsi fyrir að sinna ekki eftirlitsskyldum sínum en brást loks við í kjölfar harðorðs bréfs umboðsmanns Alþingis í árslok 2015 og fékk Lagastofnun til að gera úttekt á framkvæmd gjaldeyriseftirlits. Sú úttekt lá fyrir 26. október 2016. Síðan hefur skýrslan verið til meðhöndlunar hjá sömu aðilum og skýrslan fjallar um og gagnrýnir í fimm mánuði. Þar hefur þeim gefist færi að strika út og lagfæra að eigin hentugleik það sem þeim hefur þótt óhagfellt.
Að gefnu tilefni vill Samherji koma því á framfæri að félagið hefur ekki óskað eftir undanþágum frá gjaldeyrishöftum fyrr en í lok árs 2016 vegna lántöku erlendis en skilja mátti seðlabankastjóra sem svo að Samherji væri fyrirferðamikill í undanþágubeiðnum.
Þá sagði seðlabankastjóri eftirfarandi, aðspurður um mál Samherja: „Ja ég get nú ekki talað um einstök mál, ég meina, það má eiginlega segja hvað með það í sjálfu sér. Það er oft, það er fullt af svona málum sem komu upp og hérna já, svo fara þau ekki alla leið. Það er ekki okkar að taka ákvarðanir um það, það er annarra.“
Til allrar hamingju er húsleitin og mál Samherja einstakt. Hins vegar kærði Seðlabankinn á annað hundrað einstaklinga og fyrirtæki til lögreglu. Eftirtekjan af því er engin fyrir bankann en eftir sitja viðkomandi aðilar með þann stimpil frá seðlabankastjóra að hafa sloppið vegna klúðurs annarra en Seðlabankans.
Hvað sem líður orðum seðlabankastjóra að það sé ekki hans að taka ákvörðun um hvort mál fari „alla leið“ eða ekki þá er það hans ákvörðun hvort farið sé í húsleit, haldinn blaðamannafundur, mál séu kærð til lögreglu eða með hvaða hætti þeim er lokið af hálfu bankans. Sama gildir um setningu reglna og tillögur við lagabreytingar. Þessar ákvarðanir eru alltaf hans. Það er ekki lagaleg skylda embættismanna, eins og seðlabankastjóra hefur verið títtrætt um, að hafa fólk fyrir rangri sök. Það er brot í starfi. Fólk og fyrirtæki líta ekki á það sem tækifæri að vera kært. Slíkt er mjög íþyngjandi fyrir flesta.
Seðlabankastjóri hefur oftsinnis hundsað niðurstöður og rökstuðning sérstaks saksóknara í málum sem bankinn hefur kært og ýmist borið því við að málin hafi verið of flókin fyrir embættið eða um sé að kenna lagaklúðri sem rekja megi til annarra en bankans. Í umræddu viðtali 23. mars sl. staðfesti seðlabankastjóri hins vegar að eitt af meginhlutverkum bankans sé smíði lagafrumvarpa. Verður það ekki skilið með öðrum hætti en að Seðlabankinn hafi átt virka aðkomu að því lagaklúðri sem seðlabankastjóri reynir ítrekað að kenna öðrum um.
Ef Seðlabankinn hefði virt niðurstöður og leiðbeiningar sérstaks saksóknara eða þær fjölmörgu ábendingar sem bankanum hafa borist í gegnum árin hefði vafalaust verið hægt að forða miklu tjóni og miska fjölmargra einstaklinga og lögaðila. Hafa skal í huga að bankinn hefur kært á annað hundrað einstaklinga og lögaðila frá setningu gjaldeyrishafta.
Að lokum skal því haldið til haga að í dag eru nákvæmlega fimm ár frá því að Seðlabankinn réðist inn á starfsstöðvar Samherja með um sextíu manna her, í beinni útsendingu fjölmiðla auk þess sem upplýsingafulltrúi bankans sendi fréttatilkynningu um húsleitina út um allan heim. Ávirðingarnar náðu hæst tugum milljarða króna en ekki var meira að marka þær ávirðingar en svo að bankinn sá sig umkominn að ljúka málinu með sátt upp á 8,5 milljón króna. Þegar því var hafnað skellti hann á Samherja 15 milljón króna sekt.
Við upphaf húsleitar lýsti forstjóri Samherja strax yfir ábyrgð á hendur forsvarsmönnum Seðlabankans og fór fram á að fá upplýsingar um grundvöll húsleitarinnar svo unnt væri að takmarka tjónið af þessum harkalegu aðgerðum. Seðlabankinn kaus hins vegar að hundsa þá kröfu líkt og annað sem ekki fellur að hans hugmyndum. Þess í stað hefur bankinn, með seðlabankastjóra í broddi fylkingar, ítrekað borið á borð fjölmiðla og dómstóla rangar upplýsingar að því er virðist til að breiða yfir eigin gjörðir.
Þorsteinn Már Baldvinsson
Kristján V. Vilhelmsson