Ágæta samstarfsfólk.
Þrátt fyrir ótíð og erfið skilyrði til sjósóknar hafa aflabrögð Samherjaskipanna verið ágæt undanfarna mánuði. Vinna í fiskvinnslunum hefur verið stöðug og við unnum sama magn og á síðasta ári. Markaðir fyrir bolfiskafurðir hafa verið í góðu jafnvægi, við höfum náð að selja allar okkar afurðir og verð hafa verið stöðug. Markaðir fyrir uppsjávarafurðir hafa hinsvegar verið erfiðir vegna óvenjulegra aðstæðna, einkum í Rússlandi, Úkraínu og Nígeríu sem eru mjög mikilvægir markaðir fyrir okkar uppsjávarfisk.
Fjöldi Íslendinga hefur á undanförnum árum flutt til Noregs og samanburður á kostum þeirra og kjörum verið áberandi í umræðunni hér á Íslandi. Þótt ekki hafi margt fólk úr okkar fiskvinnslu haldið utan er engu að síður töluvert um að samanburður sé gerður á launum í fiskvinnslu hér á landi og í Noregi. Við tökum þá umræðu alvarlega og höfum þess vegna lagt í töluverða vinnu við að greina þær tölur og forsendur sem að baki búa á hlutlausan hátt. Tilgangurinn er að upplýsa ykkur um þessi mál svo þið getið sjálf lagt mat á kjörin, því ýmsir hlutir eru frábrugðnir á milli landa án þess að þess sé yfirleitt getið í umræðunni.
Samanburður á launum er í eðli sínu flókinn og því er ætíð nauðsynlegt að fara yfir allar forsendur sem liggja að baki útreikningunum. Skilgreiningar á vinnutíma og álag á yfirvinnu eru til dæmis mjög mismunandi milli landa og því þarf að taka tillit til þessara þátta auk fjölda annarra þegar þessir hlutir eru bornir saman.
Í samanburðinum hér á eftir höfum við valið að taka allan kostnað sem fyrirtæki í fiskvinnslu í Noregi og Þýskalandi hafa á vinnustund, samanborið við Samherja á Dalvík. Það hlutfall sem launþegi fær af launakostnaðinum er mismunandi eftir því hvernig launakostnaður er samsettur í viðkomandi landi. Þessi kostnaður myndast hins vegar allur vegna þeirrar skuldbindingar sem felst í ráðningarsambandi fyrirtækis og einstaklings í hverju landi fyrir sig.
Greiðslur fyrir neysluhlé
Þegar laun og launakostnaður í fiskvinnslu í Noregi eru borin saman við Ísland þarf að taka tillit til nokkurra mikilvægra þátta. Munur er á skilgreiningu á vinnutíma og hvort greitt er fyrir neysluhlé eða ekki. Í Noregi fær starfsmaður sem kemur til vinnu kl. 8 og fer heim kl. 16 greiddar 7,5 klst. í dagvinnu, vegna þess að hann fær ekki greitt fyrir neysluhlé. Starfsfólk í fiskvinnslu í Þýskalandi fær heldur ekki greitt fyrir neysluhlé og þarf það því að vera að störfum frá 8:00-16:45 til að fá greidda 8 tíma í dagvinnu. Á Íslandi kveða kjarasamningar á um að greiða starfsfólki í fiskvinnslum öll neysluhlé. Hérlendis fær starfsfólk því greitt fyrir fulla átta tíma komi það til vinnu kl. 8 og fari heim kl. 16 ólíkt því sem gerist í Noregi og Þýskalandi.
Skilgreining á dagvinnutíma
Það er einnig breytilegt milli landa hvenær heimilt er að vinna dagvinnu innan dagsins. Í Noregi er dagvinnutíminn í flestum
tilfellum unninn milli 6:00 og 18:00 þannig að starfsmenn geta unnið sína sjö og hálfan tíma í dagvinnu hvenær sem er á þessu
tólf tíma tímabili. Fyrstu tveir tímar að lokinni dagvinnu eru greiddir með 50% álagi en 80% á Íslandi. Í Þýskalandi
er þessi tími skilgreindur milli 6:00 og 23:00. Á Íslandi er dagvinnutíminn skilgreindur mun þrengra. Hjá okkur fær einstaklingur hluta af
sínum 8 tímum greidda í næturvinnu vinni hann til dæmis frá klukkan 9:00 til 17:00 en dagvinnutími á Dalvík er skilgreindur milli 8:00 og
16:00.
Ef unnin er átta tíma vaktavinna í Noregi er greitt 20% álag á seinni vakt á þá tíma sem unnir eru utan hefðbundins
dagvinnutíma.
Sveigjanleiki og stöðug laun
Ekki er hægt að bera laun í fiskvinnslu saman í þessum löndum án þess að skoða möguleika þeirra á sveigjanlegum vinnutíma þegar álagstímar eru. Í Þýskalandi hafa starfsmenn sérstakan söfnunarreikning þar sem að safnað er upp tímum sem unnir eru umfram átta stunda vinnudag en þeir eru síðan greiddir þegar ekki er unnið eða unnir eru styttri dagar. Þannig halda starfsmenn stöðugum launum og atvinnurekandinn hefur möguleika á breytilegum vinnutíma eftir aðstæðum hverju sinni. Í Noregi er þessu öðruvísi farið. Þar eru mun rýmri reglur um greiðslu launa til starfsfólks úr „atvinnuleysistryggingasjóði“ vegna hráefnisskorts eða vegna lokana yfir lengri tímabil. Slíkar lokanir eru algengar í fiskvinnslum í Noregi og þegar til þeirra kemur fær starfsfólk ekki greidd full laun.
Launatengd gjöld
Launatengd gjöld á Íslandi og Noregi eru ekki þau sömu. Tryggingargjald á þeim svæðum í Norður Noregi sem taka á móti mestum afla og starfrækja flestar vinnslur er frá 0% og upp í 5,1% en á Íslandi greiða öll fyrirtæki 7,49% tryggingargjald. Greiðslur atvinnurekenda í lífeyrissjóði eru mun lægri en á Íslandi. Í Noregi er mótframlag frá 2% af launum og upp í 4,4%. Það er breytilegt eftir því hvort starfsmenn eru í stéttarfélagi eða ekki en að meðaltali er mótframlagið um 3,5%. Á Íslandi er þetta mótframlag frá 8% upp í 10%. Meðaltalið hjá okkur er 9,5% Önnur launatengd gjöld eru svipuð milli landanna.
Stöðug vinna
Eins og þið vitið flest þá höfum við undanfarinn áratug stefnt að því að reka fiskvinnslu sem starfar allt árið; þar sem starfsfólk býr ekki við óvissu heldur getur alltaf gert ráð fyrir að það sé vinna á morgun. Útgerð okkar hefur einnig verið stjórnað, með okkar sjómönnum, í samræmi við þarfir vinnslunnar hverju sinni. Þannig viljum við hafa það og þær kröfur gerum við til okkar. Með þessum hætti teljum við okkur geta laðað til okkar hæft starfsfólk með mikla þekkingu og færni á sínu sviði.
Taflan hér fyrir neðan sýnir launakostnað á greiddan tíma, fyrirtækja í þremur löndum. Til að tölurnar í töflunni séu samanburðarhæfar þurfum við að deila átta tíma launum á Íslandi niður á sjö og hálfa klukkustund eins og í Noregi. Kostnaðurinn í fiskvinnslu Samherja á Dalvík er meðallaunakostnaður á klst. á tímabilinu 6 til 18.
Fiskvinnslur | ÍSK/klst. |
Samherji Dalvík | 3.501 |
Bolfiskvinnsla í Noregi | 3.433 |
Laxavinnsla í Norður Noregi | 3.424 |
Fiskverksmiðja í Þýskalandi | 2.808 |
Bolfiskvinnsla í Þýskalandi | 2.400 |
*Notað er gengið 17 ÍSK á norskri krónu og 150 ÍSK á evru í útreikningum.
Þessum tölum höfum við safnað undanfarið og gert sambærilegar eftir bestu getu. Við töldum rétt að koma þeim á framfæri við ykkur. Það er mikilvægt að við vitum öll þær forsendur sem búa að baki þeim störfum sem við gegnum og getum borið okkur saman við þá sem standa framarlega og eru okkar helstu keppinautar um allan heim. Það er svo einnig sjálfsagt að við veltum öll fyrir okkur hver eðileg launakjör eru og hvernig atvinnuöryggi og aðbúnaði okkar er háttað. Það er umræða sem Samherji vill gjarnan taka þátt í. Við gerum okkur grein fyrir því að til þess að vera áfram samkeppnisfær við það besta, verðum við að hlúa vel að starfsfólki okkar.
Með kveðju
Þorsteinn Már Baldvinsson
≈
Meðfylgjandi er tafla með skýringum, sem sýnir útreikning á launakostnaði í fiskvinnslu okkar á Dalvík árið 2014.
Meðalkostnaður á vinnustund í fiskvinnslu Samherja á Dalvík árið 2014
Tímar unnir milli 06:00 og 18:00 | |||
* | Laun | kr/klst | |
1 | Meðal tímalaun frystishúss | 1.560 | |
2 | Meðal hóp- og snyrtibónus | 558 | |
3 | Orlofs- og desemberuppbót | 56 | |
4 | Aukagreiðslur Samherja | 253 | |
Samtals meðallaun á klst. | 2.427 | ||
Orlof | 260 | 10,70% | |
5 | Samtals laun með orlofi | 2.687 | |
Launatengdur kostnaður atvinnurekanda | |||
Mótframlag í lífeyrissjóð | |||
6 | Mótframlag í almennan lífeyrissjóð | 215 | 8,00% |
7 | Mótframlag í séreignarsjóð | 40 | 1,50% |
Samtals mótframlag | 255 | ||
Laun og mótframlag á klst. | 2.942 | ||
8 | Önnur launatengd gjöld | ||
Tryggingagjald | 220,4 | 7,49% | |
Sjúkrasjóður | 26,9 | 1,00% | |
Orlofsjóður | 6,7 | 0,25% | |
Endurmenntunarsjóður | 8,1 | 0,30% | |
Starfsendurhæfingarsjóður | 3,5 | 0,13% | |
Samtals mótframlög | 265,49 | ||
Samtals launakostnaður á klst. | 3.207 | ||
9 | Annar kostnaður | ||
Rekstur mötuneytis | 75 | ||
10 | Meðalkostnaður á klst milli 6-18 | 3.282 | |
11 | Meðalkostnaður til samanburðar við Noreg | 3.501 |
*Skýringar með töflunni að ofan
1) Meðal tímalaun frystihúss. Þetta eru meðaltímalaun sem greidd voru í frystihúsinu á Dalvík árið
2014. Vinnan fór fram á milli klukkan 6 og 18. Um 15% þessara vinnustunda eru greiddar sem næturvinna samkvæmt skilgreiningu Íslenskra
kjarasamninga á dagvinnutíma sem er mjög frábrugðin skilgreiningunni í Noregi og Þýskalandi. Einnig er skilgreining á viðveru á
vinnustað og greiddum tíma mismunandi eftir löndum.
2) Meðal hóp og snyrtibónus. Allar greiðslur vegna afkastatengdra bónusgreiðslna til starfsmanna deilt niður á unna tíma.
3) Orlofs og desemberuppbót. Kjarasamningsbundnar greiðslur vegna orlofs og desemberuppbótar. Þær voru 113.100 krónur árið 2014 m.v. fullt starf.
4) Aukagreiðslur Samherja. Samherji hefur undanfarin ár greitt aukalega umfram kjarasamninga umtalsverðar launa uppbætur. Í fyrra námu þessar greiðslur 510.500 kr m.v. fullt starf.
5) Samtals laun með orlofi. Samtals tímalaun til starfsmanna fiskvinnslu sem eru félagar í Einingu Iðju árið 2014 námu 2.687 krónum á klst.
6) Mótframlag í lífeyrissjóð. Lögbundið mótframlag atvinnurekenda í almenna lífeyrissjóði sem er 8%.
7) Mótframlag í séreignarsjóði. Mótframlag atvinnurekenda ef launþegi kýs að greiða í séreignarsjóð. Flestir starfsmenn Samherja greiða í séreignarsjóð og kostnaður vegna þessa er því 1,5% hjá Samherja en gæti hæst orðið 2% prósent ef allir starfsmenn kysu að greiða í séreignarsjóð.
8) Önnur launatengd gjöld. Atvinnurekendum er skylt að greiða ýmis mótframlög til ríkis og stéttarfélaga sem hluti af kjarasamningum starfsmanna. Þessi mótframlög eru mjög mismunandi milli landa.
9) Annar kostnaður. Í fiskvinnslu Samherja á Dalvík er boðið upp á fæði starfsmönnum að kostnaðarlausu, umfram það sem tíðkast í Noregi og Þýskalandi. Eftir að hafa borið þetta saman við Noreg og Þýskaland metum við þennan umfram kostnað á 75 krónur á hvern greiddan tíma.
10) Meðalkostnaður á klst. Árið 2014 kostaði hver vinnustund í fiskvinnslu Samherja á Dalvík 3.282 kr
11) Meðalkostnaður til samanburðar við Noreg. Í þessum lið hefur verið tekið tillit til þess að í norskri fiskvinnslu eru einungis greiddir 7,5 tímar fyrir dagvinnu sem krefst 8 tíma viðveru en á Íslandi eru greiddir 8 tímar fyrir sömu viðveru og sömu neysluhlé.