Erfið staða í sjávarútvegi

Fréttatilkynning frá Samherja hf:

Í febrúar sl. tilkynnti Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., að nú væri tími til að sækja fram. Á undanförnum mánuðum hefur þeirri yfirlýsingu verið fylgt eftir með kaupum á skipum og fyrirtækjum, bæði hér heima og erlendis.

Einn liður í fyrirhugaðri sókn Samherja eru áform um að byggja upp landvinnslu félagsins á Dalvík og gera hana þá fullkomnustu í heimi. Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning þess verkefnis á síðustu mánuðum og nú liggja allar áætlanir fyrir. Í millitíðinni hafa allar ytri aðstæður landvinnslu á Íslandi hins vegar snúist mjög til verri vegar. Hráefnisverð hefur hækkað um 30% frá áramótum og gengi krónunnar hefur styrkst um 10% á sama tíma. Þessar breytingar ásamt öðrum kostnaðarhækkunum innanlands hafa það í för með sér að framlegð vinnslunnar hefur minnkað verulega. Veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar, sem leggur til að aflaheimildir í þorski verði minnkaðar til mikilla muna frá því sem nú er, eru mikið áfall. Þau tíðindi eru síst til þess fallin að auka fyrirtækum í sjávarútvegi bjartsýni.

Framkvæmdum frestað á Dalvík
“Það er augljóst að leikinn verður varnarleikur í íslenskum sjávarútvegi á næstu misserum. Gengi íslensku krónunnar, hátt vaxtastig og niðurstöður HAFRÓ um ástand þorskstofnsins hafa veikt stöðu sjávarútvegsins mjög mikið. Í ljósi þessa hefur Samherji ákveðið að fresta fyrirhuguðum framkvæmdum við uppbyggingu landvinnslunnar á Dalvík um eitt ár og skoða málið að nýju næsta vor,” segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.