Þorsteinn Már Baldvinsson:
Á ráðstefnu um Akureyri og atvinnulífið, sem efnt var til á Akureyri 18. október sl., flutti Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf, erindi þar sem hann beindi sjónum að þróun byggðar á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu með áherslu á sjávarútveginn. Erindi Þorsteins fer hér á eftir:
(Power Point glærusýningu með erindinu er hér 1134Kb)
Samspil sjávarútvegs á Akureyri við atvinnulífiðAtvinnulífið í bænum er að sönnu að breytast en að mínu mati megum við ekki vanmeta þá þætti sem við þó höfum til staðar. Hér höfum við stórt sjúkrahús sem er og getur í vaxandi mæli orðið leiðandi í rannsóknum, samstarfi við líftæknifyrirtæki og að sjálfsögðu haft gagnkvæman stuðning af starfsemi Háskólans á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri er að sama skapi mjög mikilvægur fyrir bæjarfélagið og þarf umfram allt að halda áfram að virkja samstarf við atvinnufyrirtækin í bænum. Í umræðunni um HA vill oft gleymast mikilvægi VMA og MA, sem og annarra skóla á svæðinu, sem ég vil hér undirstrika.
Þriðja stóra atvinnusviðið í bænum er síðan iðnaðurinn, úrvinnsla landbúnaðarafurða og sjávarútvegurinn. Á sjávarútvegssviðnu höfum við Samherja og ÚA í broddi fylkingar en hvað landbúnaðarúrvinnsluna varðar tel ég að fyrirsjáanleg sé áframhaldandi fækkun starfa. Vegna uppbyggingar sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur fjölbreytni í störfum hjá þeim aukist og ég vona að sú þróun haldi áfram. Stærðar sinnar vegna hafa fyrirtækin líka burði til þess að hafa með ýmsum hætti áhrif að þróun í öðrum greinum atvinnulífsins, bæði á heimavelli og víðar á landinu. Þetta höfum við hjá Samherja gert, bæði með beinum fjárfestingum og til dæmis með þátttöku í Fjárfestingarfélaginu Kaldbaki. Þess ber einnig að geta að við höfum lagt okkur fram við að þróa vinnslubúnað í samvinnu við íslensk fyrirtæki, frekar en erlend. Búnað sem hugsanlega er hægt að þróa sem útflutningsvöru. Með því erum við að stuðla að aukinni atvinnu í heimabyggð eða í það minnsta í landinu.
Ekki verður skilið við umræður um stöðu atvinnumálanna hér á svæðinu í dag án þess að nefna að við höfum ekki í augsýn neinn valkost í hefðbundinni stóriðju. Hvort sem okkur líkar betur eða verr er þetta sú staðreynd sem við verðum að horfa út frá þegar við ræðum um tækifæri til styrkingar atvinnulífs á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu til framtíðar.
Þróun Sjávarútvegs
Nú ætla ég að víkja máli mínu að sjávarútveginum og hvernig er umhorfs þar í dag. Það er alveg ljóst að miklar breytingar hafa orðið á síðustu mánuðum og árum í eignarhaldi sjávarútvegsfyrirtækja í landinu. Til að sýna ykkur hvernig þróunin hefur verið í rækjuiðnaðinum í landinu bið ég ykkur að líta á þessa mynd.
Rauðu doppurnar sýna rækjuverksmiðjur sem hafa verið í rekstri á Íslandi frá því 1990. Þær eru 37 talsins og dreifast um mest allt land. Þetta eru verksmiðjurnar sem eru starfandi í dag. Þær eru 18 talsins. Þetta sýnir okkur að rekstrarumhverfið í rækjuiðnaðinum hefur verið erfitt.
Ef við skoðum aðeins nánar hvað það er sem hefur breyst í rekstrarumhverfi rækjuverksmiðja í landinu á síðustu árum má sjá breytt aðgengi að hráefni. Árið 1995 veiddum við um 75 þúsund tonn af rækju, í fyrra voru veidd um 25 þúsund tonn. Þetta eru miklar sviptingar í öflun hráefnis þar sem verksmiðjurnar þurfa að fá rúm 30 þúsund tonn innflutt til að halda vinnslu gangandi.
Ef við skoðum rækjuveiðar í heiminum sést þessi mynd. Það innflutta hráefni sem við höfum aðgang að án þess að greiða tolla af því er um 120 þúsund tonn, þ.e. hráefni frá Noregi, Danmörku og hluta fyrrum Sovétlýðvelda. Við erum að keppa við Norðmenn um þeirra hráefni og það sem skekkir samkeppnistöðu okkar er mikill flutningskostnaður. Hann er meiri heldur en orku- og launakostnaður við framleiðslu á afurðum.
Það er ljóst að þetta getur ekki gengið til lengdar. Sérstaklega ekki í ljósi þess hvernig afurðarverð hefur þróast á síðast liðnum 6 árum. Afurðarverð hefur lækkað úr 5 í 3,5 pund í dag. Þetta er lækkun um 1,5 pund á sama tíma og við neyðumst til að auka okkar kostnað við hráefnisöflun vegna þess að rækjuveiðar við Ísland hafa brugðist.
Hér má einnig benda á skiptingu útflutnings á rækjuafurðum. Árin 1996 og 1997 voru um 20 þúsund tonn flutt út af sjófrystri rækju, í fyrra var þetta innan við 5 þúsund tonn. Þessi þróun hefur haft í för með sér fækkun starfa sem gáfu yfir 1 milljarð króna í tekjur og er ívið hærri upphæð en launagreiðslur voru á síðasta ári hjá álverinu á Grundartanga. Ég nefni sem dæmi fimm skip hér við fjörðinn sem áður voru að frysta rækju, þ.e. Blika á Dalvík, Margrétina, Hjalteyrina og Svalbak á Akureyri, Kleifabergið í Ólafsfirði. Hér hafa störf sjómanna horfið og þróunin hefur ekkert að gera með það hvort þetta eru góð eða slæm fyrirtæki heldur skapast þetta af ytra umhverfi.
Þorskkvóti sem hefur verið úthlutaður síðastu ár til aflamarksskipa hefur minnkað. Fiskveiðiárið ´98-´99 var rúmum 200 þúsund tonnum úthlutað, 2002/2003 er úthlutunin tæp 150 þúsund tonn. Það er alveg ljóst að þetta hefur gífurleg áhrif á rekstrarumhverfi okkar sem erum í sjávarútvegi. Á sama tíma og við búum við þessa þróun hér hafa hraðfiskibátar tekið til sín æ stærri hlut í afla, eins og sjá má hér á myndinni. Miðað við fréttir í ríkisfjölmiðlunum og frásagnir af yfirlýsingum sumra þingmanna þá er ekki hægt að skilja annað en stærri fyrirtækin í sjávarútveginum standi fyrir því að fækka störfum. Ytra umhverfið eigi engan þátt í því.
Til að sýna mikilvægi annarra veiða sem við höfum aflað okkur reynslu í hef ég sett upp mynd af útflutningsverðmætum á síðasta ári. Verðmæti þess þorsks sem úthlutað er í aflamarki er tel ég að verði um 30 milljarðar króna en aðrar tegundir, s.s rækja af Flæmingjagrunni, þorskur úr Barentshafinu, síld, kolmunni og úthafskarfi með tæpa 15 milljarða! Útflutningsverðmæti af innfluttri rækju er um 5,5 milljarðar króna.
Þetta eru tekjur sem ég sé að verði ekki til staðar í framtíðinni, einfaldlega vegna þess að við munum ekki geta flutt inn hráefni í jafn miklum mæli og við gerðum. Ég held að launagreiðslur hér á Eyjafjarðarsvæðinu vegna þessara úthafsveiða séu u.þ.b. 1 milljarður. Fyrir nokkrum árum fluttu Íslendingar inn 10-15 þúsund tonn af Rússaþorski og ætluðu að hafa af því fastar tekjur. Í dag er þetta nánast aflagt. Þessi þorskur fer meðal annars til Kína í framhaldsvinnslu, þar sem er miklu ódýrara vinnuafl. Flutningskostnaður til Kína og til baka aftur frá Evrópu er lítið hærri en frá Íslandi til Evrópu .
Fiskeldi - vaxtarbroddur framtíðarinnar
Samherji hf. hefur kosið að setja aukinn slagkraft í uppbyggingu í fiskeldi og slíkt hið sama hafa mörg önnur sjávarútvegsfyrirtæki á landinu kosið að gera. Þetta er ein af leiðum sjávarútvegsfyrirtækja til að mæta samdrætti í aflaheimildum og atvinnuuppbygging sem getur orðið þjóðarbúinu mjög mikilvæg í framtíðinni.
Fiskeldi nefni ég hér vegna þess að margt bendir til að Eyjafjörður henti vel til fiskeldis en þau tækifæri verða ekki nýtt nema að baki standi stórir, fjársterkir aðilar sem búa yfir þekkingu í veiðum og vinnslu á fiski. Eðlilega ber því að horfa til sjávarútvegsfyrirtækjanna hér í bænum að nýta þetta tækifæri, atvinnulífinu á svæðinu til framdráttar. Fiskeldi í Eyjafirði á að geta leitt af sér betri nýtingu framleiðslutækja sem fyrir eru og skapað hér ný störf. Nú þegar er búið að leyfa eldi í firðinum fyrir yfir 1200 tonnum af fiski. Er þar um að ræða eldi á þorski,ýsu, kræklingi og laxi!
Ég vil nota þetta tækifæri hér og brýna bæjaryfirvöld til að leggja áherslu á að skapa hér öll skilyrði og leggjast á árar með okkur að ná til Akureyrar allri stjórnsýslu fiskeldismála og gera bæinn að miðstöð þeirrar atvinnugreinar á Íslandi. Tækifærið til þeirrar aðgerðar er einmitt núna þegar sjávarútvegfyrirtækin í bænum eru að hasla sér völl á fiskeldissviðinu, af þeim krafti sem raun ber vitni.
Í þessari umræðu verð ég að lýsa undrun minni á þeirri umfjöllun sem sumir fjölmiðlar og sér í lagi ríkisfjölmiðlarnir, hafa látið fara frá sér að undanförnu um fiskeldisuppbygginguna, umfjöllun sem meira á skylt við fordóma en eðlilegan fréttaflutning.
Þann 27. júní 2001 birtist til að mynda sú frétt í hádegisfréttum RÚV að laxastofninn í flestum ár í Vestur-Noregi hafi hrunið og að kenna megi fiskeldi um. Í fréttinni er dregin upp sú mynd af laxeldi að það sé að útrýma villtum laxi.
Þegar við skoðum meðfylgjandi mynd má sjá hvernig framleiðsla á eldislaxi hefur margfaldast frá 1980, og er í dag um 420 þúsund tonn. Bleika línan sýnir hinsvegar hvernig laxveiði hefur verið í ám í Noregi á sama tíma.
Þetta "hrikalega" hrun sem var í fréttunum um mitt sumar 2001 var ekki meira en svo að laxveiði í ám hefur ekki farið hærra í 20 ár! Veiðin á ám hefur ríflega tvöfaldast síðan 1996. Þetta er mjög óábyrgur fréttaflutningur og verða menn að setja sér siðferðisreglur í sambandi við fréttaflutning þegar um ræðir heila atvinnugrein sem er dæmd í einu lagi. Gögnin sem fréttin byggir á verða að vera frá trúverðugum uppsprettum. (Veiði í ám í Noregi byggi ég á gögnum frá Statistic Sentralbyrá í Noregi)
Til samanburðar getið þið séð fjölda stangveiddra laxa á Íslandi frá því 1974 og vissulega er veiðin síðustu 3 árin undir meðallagi en þar er ekki sjókvíaeldinu um að kenna og mér finnst rétt að menn hafi þessar tvær myndir í huga þegar verið er að fella dóma um heila atvinnugrein. Umfjöllunin um fiskeldið er á margan hátt kunnugleg frá því sem við höfum mátt búa við hvað varðar sjávarútveginn í heild og þar sem menn hafa því miður ekki alltaf staðreyndir og sannindi sem útgangspunkt.
Hitt er annað mál sem mér finnst mjög merkilegt ef við horfum á það hvernig laxeldið hefur aukist gríðarlega mikið á síðustu árum og það er að það skuli vera hægt að búa til markað fyrir allan þennan lax. Það er umhugsunarefni.
Sjávarútvegsbærinn Akureyri
Sú mynd sem ég hef dregið hér upp er að mínu mati mjög skýr. Mikilvægi sjávarútvegs fyrir atvinnulífið í bænum er óumdeilt. Sjávarútvegurinn á að geta haldið áfram að leiða af sér ný störf í bænum og á Eyjafjarðarsvæðinu, fyrirtækin sýna að þau hafa burði til að standa fyrir nýsköpunarverkefnum í atvinnulífinu, til dæmis á sviði fiskeldis. Þau geta líka verið mikilvæg í slíkum nýsköpunarverkefnum í samstarfi við stofnanir á borð við Háskólann á Akureyri.
Samherji hf. hefur sýnt og sannað að fyrirtækið leggur ekkert síður áherslu á uppbyggingu í landvinnslu en úti á sjó. Nægir að benda á árangur í rækjuverksmiðju okkar á Akureyri og frystihúsi og hausaþurrkun á Dalvík sem dæmi.
Hér er vert að halda til haga að Samherji hf. greiddi um 3500 milljónir króna í laun og launatengd gjöld á síðasta ári, þar af um 3000 milljónir á Eyjafjarðarsvæðinu. Á bak við þessar tölur stendur lífsafkoma fjölda fjölskyldna sem eiga mikið undir að við getum haldið áfram uppbyggingu fyrirtækisins.
Sem dæmi um áhrif Samherja á þjónustu vil ég benda á að fyrstu sex mánuði þessa árs keyptum við þjónustu fyrir um 300 milljónir króna á Eyjafjarðarsvæðinu. Við höfum einnig staðið fyrir stórum verkefnum í skipaiðnaði hér á svæðinu, t.d. breytingar á Jóni Sigurðssyni frá Færeyjum, breytingar á Þorsteini í vor og þannig mætti áfram telja.
Margfeldisáhrif rekstrar Samherja eru því mikil fyrir okkar nánasta umhverfi og hljóta að vera Eyjafjarðarsvæðinu svæðinu til framdráttar og atvinnusköpunar.
Tækifærin
Til þess að við sem erum í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja getum byggt upp atvinnugreinina og skapað fleiri störf verðum við að fá ytra umhverfi sem styður okkur. Sú óvissa um kvótakerfið sem hluti stjórnmálamanna vill skapa er mjög slæm fyrir greinina í heild og ekki síst okkar starfsfólk. Eins og ég hef rakið þá eru gríðarlegar sveiflur í hráefnisöflun og við reynum að mæta þeim eftir bestu getu. Okkur finnst nóg um það þó svo að okkar ytra umhverfi sé ekki að atast í okkar líka. Menn tala glannafengið um Evrópusambandið og telja jafnvel engan mun á því hvort Samherji eða eitthvert fyrirtæki úti í Evrópu hefur kvóta á Íslandsmiðum með höndum. Það nýjasta er að tala um einhverja "frændur" á Akureyri. Þetta er jafnvel notað sem rök fyrir því að ganga í Evrópusambandið. Hvað yrði t.d. um þann hátækniiðnað sem þorskvinnsla hér við fjörðinn er ef verulegar breytingar yrðu á núverandi fyrirkomulagi fiskveiða. Ég óttast að þá yrði þessi hátæknivinnsla úr sögunni. Ekki væri það atvinnuskapandi fyrir Eyjafjarðarsvæðið.
Að halda því fram að ekkert muni breytast ef við missum forræðið á aflaheimildum okkar til Brussel er barnaleg einfeldni. Ég held að umræðan sé því miður ekki kominn á þetta stig ennþá. Þess í stað er Evrópusambandsumræðan föst í matvöruverði á meðan hún ætti að fara að snúast um grundvallaratvinnugrein okkar, sjávarútveginn. Fá landssvæði eiga jafn mikið undir og Eyjafjarðarsvæðið að hér verði farið varlega.
Í eintöldu máli vil ég draga mínar áherslur saman í eftirfarandi: