Sjávarútvegsskóla unga fólksins við Eyjafjörð og Fjallabyggð er nú lokið. Kennt var samtals í átta vikur og voru tvær þeirra tvísetnar. Samtals voru nemendur 149 en skólinn er samstarfsverkefni Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri, fyrirtækja í sjávarútvegi og vinnuskóla ýmissa sveitarfélaga.
Sjávarútvegsskóli unga fólksins er sumarskóli fyrir ungmenni á aldrinum 13 til 16 ára og er starfræktur víða um land.
Fjölbreytt nám
Námsfyrirkomulag er breytilegt eftir byggðarlögum og kennt er 4-5 klukkustundir á dag, nokkra daga vikunnar. Námið er í formi fyrirlestra og verklegra æfinga og leikja, heimsókna á söfn, sjávarútvegsfyrirtæki og í fiskiskip.
Samherji er einn af aðalstyrktaraðilum Sjávarútvegsskóla unga fólksins og heimsækja nemendurnir m.a. fiskvinnslur ÚA og Samherja á Akureyri og Dalvík. Í ár voru nemendur á Dalvík 15 og á Akureyri 118. Á Dalvík var kennt í grunnskólanum og á Akureyri í Háskólanum á Akureyri.
Kennt víða um land
Sjávarútvegsskólinn hóf starfsemi sína árið 2013 og var þá rekinn af Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Tveimur árum síðar var samið við Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri um að taka við umsjón skólans. Í framhaldinu var svo ákveðið að hefja kennslu fyrir norðan í samvinnu við sjávarútvegsfyrirtæki á svæðinu. Í dag er skólinn einnig starfræktur í Reykjavík, á Sauðárkróki, Ísafirði og í Vesturbyggð.
Samherji meðal aðalstyrktaraðila skólans
Starfsfólk ÚA og Samherja þakkar Sjávarútvegsskóla unga fólksins fyrir farsælt samstarf og skemmtilegar heimsóknir nemenda skólans í gegnum tíðina.
Sjávarútvegsskóli unga fólksins hlaut hvatningarverðlaun Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á þessu ári.