Finnbogi Jónsson ráðinn sem starfandi stjórnarformaður Samherja.

Finnbogi Jónsson
Finnbogi Jónsson
Stjórn Samherja hf. hefur samþykkt að ráða Finnboga Jónsson sem starfandi stjórnarformann félagsins frá og með 1. júní n.k. Auk almennra starfskyldna stjórnarformanns mun Finnbogi vinna að stefnumörkun og framtíðarskipulagi fyrir félagið og erlend dótturfélög þess og að nýjum tækifærum á þeirra vegum.

Finnbogi er fæddur á Akureyri 18. janúar 1950 . Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1970, fyrrihlutaprófi í eðlisverkfræði frá HÍ 1973, lokaprófi í eðlisverkfræði frá Tækniháskólanum í Lundi í Svíþjóð 1978 og lokaprófi í rekstrarhagfræði frá Háskólanum í Lundi sama ár. Finnbogi kenndi við Gagnfræða- og Iðnskóla Vestmannaeyja 1970-71, var deildarstjóri og sérfræðingur í iðnaðarráðuneytinu 1979-82, framkvæmdastjóri Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar hf. 1982-86, forstjóri Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað frá 1986-1999, forstjóri Íslenskra sjávarafurða hf. 1999 og aðstoðarforstjóri SÍF hf. frá 1. janúar 2000.

Finnbogi var stjórnarformaður Gúmmívinnslunnar hf. á Akureyri 1983-86, sat í varastjórn Landsvirkjunar 1983-91, í aðalstjórn Landsvirkjunar 1991-95, í stjórn SÍF 1987-93, varastjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna 1988-91 og í aðalstjórn frá 1991-99, í stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva frá 1989-93, í stjórn Nord Morue og Delpiere dótturfyrirtækja SÍF Frakklandi frá 1990-99, varamaður í stjórn Olíuverslunar Íslands hf. frá 1991, í stjórn Coldwater, dótturfyrirtækis SH í Bandaríkjunum 1993-99, í stjórn Úthafssjávarfangs 1998-99 og Jökla hf. 1998-99, í stjórn Félags íslenskra fiskimjölsframleiðenda 1996-1999,stjórnarformaður Íslandssíldar hf. 1998-99, stjórnarformaður Skagstrendings hf. á Skagaströnd 1998-99, stjórnarformaður Netagerðar Friðriks Vilhjálmssonar 97 -99, í stjórn Lífeyrissjóðs Austurlands 95 –99 og stjórnarformaður Iceland Seafood Corporation í Bandaríkjunum, Gelmer Iceland Seafood í Frakklandi, Iceland Seafood Bretlandi Iceland Seafood Þýskalandi, Iceland Seafood Spáni, Iceland Seafood Japan og Tros hf, dótturfyrirtækja Íslenskra sjávarafurða h/f(nú SÍF h/f) 1999-2000.

Finnbogi er kvæntur Sveinborgu Helgu Sveinsdóttur, geðhjúkrunarfræðingi og eiga þau tvær dætur.

Fréttatilkynning frá Samherja hf. föstudaginn 28. apríl 2000.