Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli á Dalvík verður haldinn hátíðleg í tuttugasta sinn, dagana 11.-13. ágúst. Heimsfaraldurinn setti strik í reikninginn þrjú ár í röð en góðu heilli geta íbúar Dalvíkurbyggðar á nýjan leik haldið þessa einstöku fjölskylduhátíð, þar sem sjávarafurðir eru í aðalhlutverki. Samherji styrkir hátíðina með ýmsum hætti, rétt eins og flest fyrirtæki sveitarfélagsins. Fjölmargir starfsmenn Samherja í Dalvíkurbyggð koma með myndarlegum hætti að undirbúningi Fiskidagsins mikla, enda samheldni bæjarbúa mikil.
„Gjörið svo vel, gangið í bæinn“
Nýtt fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík var tekið í notkun í faraldrinum, rétt áður en settar voru strangar sóttvarnarreglur og aðgengi takmarkað verulega. Þessi stóri vinnustaður á Dalvík verður opinn almenningi laugardaginn 13. ágúst frá klukkan 12:30 til 14:30. Sigurður Jörgen Óskarsson yfirverkstjóri segir Fiskidaginn kærkomið tækifæri til að sýna húsið, sem hefur hlotið alþjóðlega athygli fyrir tæknilausnir og góðan aðbúnað.
„Það hefur verið mikil ásókn í að skoða húsið og alla tæknina sem hérna er til staðar en aðgengið er mjög takmarkað þar sem um matvælaframleiðslu er að ræða. Okkur fannst ekki koma annað til greina en að sýna þetta magnaða hús á sjálfum Fiskideginum mikla, þar sem fiskur og sjávarafurðir eru í öndvegi. Við ætlum að hafa húsið opið frá klukkan 12:30 til 14:30 og sýnum með stolti vinnustaðinn. Ég er nokkuð viss um að gestir verða margs vísari um íslenskan sjávarútveg eftir heimsóknina og hversu framarlega við Íslendingar stöndum. Fyrir hönd Samherja og starfsfólksins segi ég einfaldlega gjörið svo vel, gangið í bæinn og skoðið heimsins fullkomnasta fiskvinnsluhús.“
Sigurður Jörgen er í stjórn Fiskidagsins mikla, þannig að hann kemur sem íbúi Dalvíkurbyggðar með öflugum hætti að öllum undirbúningi fjölskylduhátíðarinnar. Samherji er stærsta fyrirtækið í Dalvíkurbyggð og kemur með ánægju að Fiskideginum mikla með ýmsum hætti. Gestum hátíðarinnar er bent á upplýsingasíðu Fiskidagsins mikla, þar er að finna alla viðburði sem í boði verða ásamt ýmsum hagnýtum upplýsingum. Eðli málsins samkvæmt koma fjölmargir starfsmenn Samherja á Dalvík að Fiskideginum mikla með einum eða öðrum hætti.
Afhenda gestum góðgæti
Fanney Davíðsdóttir matráður í mötuneyti Samherja á Dalvík sér um að afhenda gestum á öllum aldri góðgæti ásamt Júlíu Ósk Júlíusdóttur sem einnig er matráður í mötuneyti Samherja.
„Já við verðum í gamla frystihúsinu og gefum fólki sælgæti sem þangað kemur, þetta verður bara stuð við búumst við fjölda gesta. Fiskidagurinn mikli hefur komið Dalvík á kortið og minnir okkur líka á að sjávarútvegurinn er okkar helsta atvinnugrein. Ég er stolt af því að starfa í greininni og íslenskur fiskur er besta hráefnið sem ég fæ til mín í mötuneytinu,“ segir Fanney Davíðsdóttir.
Starfsmannafélag Samherja
Ragnheiður Rut Friðgeirsdóttir gæðastjóri Samherja á Dalvík er jafnframt formaður Fjörfisks, starfsmannafélags Samherja á Dalvík. Ragnheiður hefur komið að ýmsum undirbúningi hátíðarinnar í gegn um tíðina.
„Við fjölskyldan erum búin að skreyta húsið okkar og garðinn, það er mikil tilhlökkun að fá góða gesti hingað norður. Starfsmannafélagið sér meðal annars um að undirbúa grillveislurnar, þannig að það hefur verið að ýmsu að huga undanfarnar vikur. Það er bara frábært að loksins sé hægt að halda Fiskidaginn mikla á nýja leik. Ég er ekki frá því að bæjarbúar fylgist vel með veðurspám þessa dagana, auðvitað leikur veðrið stórt hlutverk. Ég hef verið svo heppin að stjórn Fiskidagsins hefur falið mér ýmis hlutverk í gegnum tíðina og mér finnst dásamlegt að geta lagt mitt að mörkum.“
Tónleikar og flugeldasýning
Á laugardagskvöldinu verða Fiskidagstónleikar í boði Samherja, sem enda með glæsilegri flugeldasýningu. Sigurður Jörgen segir tónleikana vera á heimsvísu.
„Það er alveg klárt mál, enda mjög svo vandað til verka á öllum sviðum. Margir af þekktustu listamönnum landsins stíga á svið og skemmta fólki á öllum aldri. Friðrik Ómar, Eyþór Ingi og Matti Matt ásamt gestasöngvurum, hljómsveit, raddsveit og dönsurum sjá til þess að allir skemmti sér konunglega. Ég get lofað því að þessir tónleikar verða þeir glæsilegustu í sögu Fiskidagsins mikla og þá er nú mikið sagt,“ segir Sigurður Jörgen Óskarsson yfirverkstjóri Samherja á Dalvík.
Starfsmenn Exton sjá um tæknilega hlið tónleikanna, hægt er að fylgjast með uppsetningu sviðsins á Streymi - Exton
Gestum Fiskidagsins mikla er bent á að Samherji hefur opnað tvær hleðslustöðvar fyrir almenning, stöðvarnar eru skammt frá fiskvinnsluhúsinu. Notendur þurfa að vera með aðgang frá Ísorku.