Alþjóðlega sjávarútvegssýningin Seafood Expo Global í Barcelona á Spáni opnaði í morgun og er Samherji þar með stóran og glæsilegan bás.
Steinn Símonarson aðstoðarframkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood, sem sér um að selja afurðir Samherja og fleiri fyrirtækja, segir sýninguna mikilvæga í markaðs- og sölumálum.
Sýningin í mörgum höllum
„Þessi sýning er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum og hérna eru öll helstu fyrirtækin, hvort sem um er að ræða veiðar, vinnslu eða sölu afurða. Stundum er sagt að Seafood Expo Global sé árshátíð alþjóðlegs sjávarútvegs og hallirnar sem hýsa básana eru nokkrar. Reyndar efast ég um að gestirnir nái að skoða alla básana á þessum dögum sem sýningin er haldin, þeir þurfa að kynna sér skipulagið vel áður en mætt er á svæðið. Sýningin var um langt árabil haldin í Brussel í Belgíu en ég tel að það hafi verið skynsamleg ákvörðun að færa hana til Spánar, hérna er aðstaðan á margan hátt mun betri.“
Tvær hæðir og allar aðstæður góðar
Steinn segir að bás Samherja sé á góðum stað og af stærri gerðinni.
„Já, básinn er vel útbúinn á allan hátt og aðstaðan til að taka á móti gestum er eins og best verður á kosið. Básinn er á tveimur hæðum, þannig að við getum rætt við gesti okkar í næði og farið yfir ýmis sameiginleg mál. Básinn er auk þess á áberandi stað, þannig að við erum vel sett á allan hátt. Að sjálfsögðu verðum við með ferskan íslenskan fisk á boðstólum. Einar Geirsson matreiðslumeistari veitingastaðarins RUB 23 á Akureyri hefur haft yfirumsjón með matreiðslu á básum Samherja í um tvo áratugi og svo verður einnig í ár. Samherji er þekkt fyrirtæki fyrir gæði og góðar afurðir og maturinn á básum Samherja hefur alltaf verið rómaður af gestum, ég er viss um að í ár verður hið sama uppi á teningnum.“
Viðskiptasambönd treyst og stofnað til nýrra
„Jú, undirbúningurinn er töluverður og hófst í raun og veru daginn eftir sýninguna í fyrra. Reynslan hefur kennt okkur að góður og hnitmiðaður undirbúningur skilar sér í flestum tilvikum. Á slíkum sýningum er fyrst og fremst verið að treysta viðskiptasambönd og stofna til nýrra, markmiðið er ekkert sérstaklega að ganga frá samningum. Starfsfólk okkar er með bókaða fundi frá morgni til kvölds, þannig að þetta er hörku vinna en líka skemmtileg og gefandi. Persónuleg samskipti eru nauðsynleg, þrátt fyrir að rafræn samskipti hafi rutt sér mjög til rúms á undanförnum árum.“
Ekki nóg að veiða og vinna fiskinn
„Ég hlakka til að hitta viðskiptavini okkar og sömu sögu er að segja um allt starfsfólkið. Sala afurða skiptir gríðarlega miklu máli, það er nefnilega ekki nóg að veiða og vinna fiskinn. Góður árangur í markaðssetningu er sterkur hlekkur í keðjunni og þátttakan á Seafood Expo Global er því mikilvæg,“ segir Steinn Símonarson aðstoðarframkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood.