Fjárfestingar Samherja lýsa framsýni og trú á íslenskan sjávarútveg

Heiðrún Lind Marteinsdóttir við fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík/myndir samherji.is
Heiðrún Lind Marteinsdóttir við fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík/myndir samherji.is

Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kynnti sér starfsemi fiskvinnsluhúss Samherja á Dalvík og uppsjávarveiðiskipið Vilhelm Þorsteinsson EA 11, ásamt nokkrum starfsmönnum samtakanna.

Hún segir að til þess að standast alþjóðlega samkeppni verði sjávarútvegsfyrirtæki að fjárfesta í nýsköpun og fiskvinnsluhúsið á Dalvík og Vilhelm Þorsteinsson EA 11 séu skýr dæmi um framsýni, nýsköpun og frumkvöðlastarf.

Samtökin efndu til funda á Dalvík og Akureyri um sjávarútvegsmál og því gafst tækifæri á milli funda til að skoða fiskvinnsluhúsið á Dalvík og Vilhelm Þorsteinsson EA 11, sem lá við bryggju á Akureyri eftir loðnuvertíðina. Heiðrún segir að fiskvinnsluhúsið á Dalvík sé án efa eitt fullkomnasta vinnsluhús heimsins í vinnslu hvítfisks.

Íslenskur búnaður áberandi

„Það er með miklum ólíkindum að koma inn í þetta stóra og fullkomna fiskvinnsluhús. Öll aðstaða er til fyrirmyndar og svo ber það íslensku hand- og hugverki fagurt vitni, að sjá að tæki og tól eru hér mörg merkt íslenskum framleiðendum. Ég hugsa að fáir geri sér grein fyrir því hversu miklum árangri mörg þessara fyrirtækja hafa náð í samstarfi við íslenskan sjávarútveg.“

Fá fiskiskip eins vel útbúin

Nýjasta skip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11, er eins árs um þessar mundir. Skipið liggur nú við bryggju á Akureyri að lokinni loðnuvertíð. Heiðrún Lind segir Vilhelm Þorsteinsson EA 11 gott dæmi um stórhug Samherja varðandi endurnýjun flotans.

„Þótt ég sé af sjómönnum komin hef ég aðeins farið í einn loðnutúr. En það verður að segjast eins og er að það hvarflar að manni, þegar maður gengur um nýjan Vilhelm, að það væri nú sennilega ekki vitlaust að munstra sig um borð á eina vertíð. En að öllu gamni slepptu þá er þetta nýja skip afar glæsilegt og sennilega má halda því fram að fá fiskiskip í veröldinni séu eins vel útbúin. Við bætist svo, eins og á Dalvík, að þarna má sjá margt íslenskt handverk og hugvit.“

Fjárfesting lífsnauðsynleg

„Eitt af því sem við höfum lagt áherslu á á fundum okkar um landið er að benda á hversu mikilvægt það er að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki fjárfesti. Öðru vísi er ekki hægt að tryggja samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum en þar seljum við um 98% af íslensku sjávarfangi. Þetta mikilvægi birtist glögglega hjá Samherja, bæði í landvinnslu og útgerð. Það lýsir framsýni og trú á íslenskan sjávarútveg,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.