Samherji hf.-F&L í Grindavík:
Samherji hf.-F&L í Grindavík efndi til kynningar og móttöku fyrir Grindvíkinga sl. mánudag. Dreifibréf var borið í hús í Grindavík sl. sunnudag þar sem fólki var boðið að koma og kynna sér starfsemi fyrirtækisins og þiggja um leið veitingar.
Sverrir Vilbergsson, hafnarstjóri í Grindavík, færði Óskari Ævarssyni þessa glæsilegu blómakörfu. Um fjórðungur af veltu Grindavíkurhafnar tengist starfsemi Samherja hf.-F&L á einn eða annan hátt |
Óskar Ævarsson, rekstrarstjóri Samherja hf.-F&L, segist vera mjög ánægður með hvernig til tókst, enda hafi um 150 manns komið og kynnt sér starfsemi fiskimjölsverksmiðjunnar og annan rekstur fyrirtækisins. "Ég hef lengi haft áhuga á að kynna Grindvíkingum þann viðamikla rekstur sem við höfum hér með höndum og við létum loks verða af því nú. Ég er mjög ánægður með hvernig til tókst og ég heyri ekki annað en þeir sem komu hingað séu það líka," segir Óskar.
Í móttökunni og kynningunni í Grindavík sl. mánudag var "keyrð" PowerPoint sýning sem hafði að geyma ýmsar upplýsingar um rekstur fyrirtækisins. Textinn í sýningunni fylgir hér með:
Veltan á þriðja milljarð króna
Starfsemi Samherja hf.-Fiskimjöls og lýsis hf. er yfirgripsmikil og hefur vaxið á undanförnum misserum. Velta Samherja hf. - F&L og Íslandslax á árinu 2001 var tæpir 2 milljarðar króna og á yfirstandandi ári verður hún ríflega 2 milljarðar.
Samherji hf. og Fiskimjöl og lýsi hf. sameinuðust í ársbyrjun 1997 og frá og með þeim tíma hefur fyrirtækið verið rekið undir nafninu Samherji hf. - Fiskimjöl og lýsi. Rekstur fyrirtækisins í Grindavík tekur til fiskimjölsverksmiðju, frystihúss og nú síðast fiskeldis.
Um 40 starfsmenn
Hjá Samherja hf. - F&L í Grindavík starfa um 40 manns, þar af 15 í fiskimjölsverksmiðjunni, 14 í frystihúsinu og 10 í laxeldinu. Auk þess eru á bilinu 10-15 sjómenn frá Grindavík á skipum Samherja.
Samherji hf.- F&L greiddi starfsfólki sem búsett er í Grindavík fast að 120 milljónum króna í laun á síðasta ári og um 40 milljónir króna til starfsfólks sem búsett er annars staðar á Suðurnesjum. Þetta eru starfsmenn fiskimjölsverksmiðju, frystihússins, laxeldisstöðvarinnar auk sjómanna á skipum Samherja.
Afkastagetan rösklega 1000 tonn á sólarhring
Fiskimjölsverkmiðja Samherja hf. - F&L hefur aldrei tekið á móti meira hráefni en á þessu ári. Bræðslugeta verksmiðjunnar hefur aukist verulega á síðustu misserum samfara aukinni tæknivæðingu. Afkastagetan er á bilinu 1000-1100 tonn af bræðslufiski á sólarhring.
Fiskimjölsverksmiðja Samherja hf. - F&L í Grindavík er í fjórða sæti yfir móttöku hráefnis á þessu ári - þrjár verksmiðjur á Austfjörðum hafa tekið á móti meira hráefni á árinu. Verksmiðjan jók verulega við sig í móttöku hráefnis og vinnslu á yfirstandandi ári í samanburði við árið 2001.
111 þúsund tonn á þessu ári
Á þessu ári hefur verksmiðjan tekið á móti um 111 þúsund tonnum af hráefni, sem er veruleg aukning frá fyrra ári þegar tekið var á móti 93 þúsund tonnum. Aldrei áður í sögu fyrirtækisins hefur verið brætt úr yfir 100 þúsund tonnum af hráefni.
Á þessu ári hefur fiskimjölsverksmiðjan fyrst og fremst fengið hráefni frá skipum Samherja hf., m.a. Oddeyrinni EA, Þorsteini EA og Vilhelm Þorsteinssyni EA.
Auk skipa Samherja hefur verksmiðjan unnið hráefni af Bergi VE (tæplega 20 þúsund tonn á þessu ári) og sömuleiðis Júpíter á Þórshöfn. Síldin hefur verið flökuð og fryst um borð í bæði Þorsteini EA og Vilhelm Þorsteinssyni EA. Afskurðurinn, sem er um 50% af síldinni, er bræddur í verksmiðjunni í Grindavík.
Fróðleikur um loðnu
Hráefni fiskimjölsverksmiðjuSamherja hf.-F&L er loðna, síld og kolmunni. Til fróðleiks má geta þess að í desember samanstendur loðna af þurrefni (16%), fitu, (12%) og vatni (72%). Í lok mars er loðnan 13% þurrefni, 4% fita og 83% vatn.
Öflug skip
Mikill kvóti Samherja í uppsjávartegundum hefur ekki síst lagt grunn að vinnsluaukningu verksmiðjunnar í Grindavík. Góð reynsla hefur fengist af fjölveiðiskipunum Þorsteini EA og Vilhelm Þorsteinssyni EA. Með tilkomu Baldvins Þorsteinssonar EA hefur Samherji yfir að ráða tveimur stærstu skipum í uppsjávarveiðum hér á landi.
Avinnusköpun vegna Íslandslax
Samherji hf. á meirihluta í laxeldisstöðinni Íslandslaxi í Staðarhverfi, en þar var slátrað um 1300 tonnum af laxi á síðasta ári. Fiskinum er slátrað og honum pakkað til útflutnings í frystihúsi fyrirtækisins í Þórkötlustaðahverfi. Með aðkomu Samherja-F&L að Íslandslaxi á þessu ári fluttust fjórtán ný störf til Grindavíkur.
Með stærstu útflytjendum loðnuhrogna
Samherji - F&L er með stærstu útflytjendum loðnuhrogna hér á landi. Í frystihúsi fyrirtækisins eru frystar loðnu- og síldarafurðir. Meðan á frystingu loðnuhrogna stendur bætast um 30 störf við fastan starfsmannafjölda fyrirtækisins.
20 þúsund tonn af mjöli og 6.400 tonn af lýsi
Á þessu ári hefur fiskimjölsverksmiðjan framleitt rúm 20 þúsund tonn af mjöli og um 6.400 tonn af lýsi. Þessar afurðir voru unnar úr 111 þúsund tonnum af hráefni, sem bárust á land í 107 löndunum. Afurðunum var skipað út í samtals 16 mjölskip, 2 lýsisskip og 4 skip tóku frystar afurðir frá skipum Samherja og vinnslu fyrirtækisins í Grindavík.
Orkufrekur iðnaður
Fiskimjölsiðnaðurinn er mjög orkufrekur. Það segir sína sögu að til framleiðslunnar í verksmiðju Samherja hf.-F&L þurfti á þessu ári hvorki meira né minna en 2,4 milljónir lítra af svartolíu og rúmlega 10 milljónir kílóvatssstunda af rafmagni.
Mikilvægi góðrar hafnar
Bætt hafnarskilyrði í Grindavíkurhöfn eru mikilvægur þáttur í að renna styrkari stoðum undir starfsemi Samherja í Grindavík. Um fjórðungur af veltu Grindavíkurhafnar kemur af starfsemi Samherja hf.-F&L.
Brýnt er að hraða dýpkun hafnarinnar eins og kostur er.
Eins og er eiga stór fjölveiðiskip í erfiðleikum með að athafna sig í höfninni. Þess vegna er mikilvægt verkefni að dýpka höfnina og styðja þannig við þessa starfsemi í Grindavík.
Endurbætur fiskimjölsverksmiðju á lokastigi
Miklum fjármunum hefur verið varið til endurbóta á fiskimjölsverksmiðjunni og má segja að þær framkvæmdir sem staðið hafa yfir að undanförnu séu lokahnykkurinn í því verki. Nær öll þjónusta við skipin sem leggja upp hjá Samherja F&L er unnin af heimamönnum. Sama gildir um endurbætur á fiskimjölsverksmiðjunni.