Árshátíð Samherja var haldin í Íþróttahöllinni á Akureyri um liðna helgi. 1100 manns frá öllum starfsstöðvum og skipum félagsins ásamt gestum komu þar saman og áttu skemmtilegt kvöld. Fróðleg myndasýning tók á móti gestum í anddyrinu og síðan var glæsileg veisla undir stjórn hins stórskemmtilega Freys Eyjólfssonar. Veislumatur var frá Bautanum og Rub 23. Pétur Örn og Magni stjórnuðu fjöldasöng og hljómsveitin Í svörtum fötum spilaði undir dansi fram á nótt.
Þetta var fjölmennasta árshátíð Samherja á Íslandi frá upphafi þar sem starfsmenn Samherja á Íslandi og makar voru rúmlega 900 talsins en einnig var stór hópur frá erlendum samstarfsfyrirtækjum Samherja og fleiri góðir gestir, um 200 manns, alls 1100 gestir.
Kristján Vilhelmsson setti samkomuna og minntist tímamóta hjá Samherja sem vert væri að þakka fyrir og fagna. Fyrst væri það 30 ára afmæli Samherja á síðasta ári en einnig að 10 ár væru liðin frá strandi og björgun Baldvins Þorsteinssonar. Af því tilefni hafi þyrlusveit Landhelgisgæslunnar verið færð vegleg gjöf á dögunum. Kristján vakti einnig athygli á styrkveitingum félagsins á undanförnum árum og þá sérstaklega styrktarsamningi við Ólympíusamband fatlaðra, Special Olympics, sem gerður var til þriggja ára. Að lokum sagði Kristján öryggismál vera alltaf ofarlega í huga þeirra og þau aldrei of oft rædd. Hann sagði frá því að starfsmenn Samherja hafi gengið í það að hanna og framleiða nýjan og öruggari búnað til löndunar á fiski “Löndunarbúrið” sem var formlega tekið í notkun á Fiskidaginn mikla í fyrra, mikið framfararskref.
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri minntist í hátíðarræðu sinni á viðurkenningu til Samherja nýverið sem traustasta fyrirtæki landsins. Hann sagði þá Kristján telja að fyrirtækið hafi verið traust og vel rekið öll þessi viðburðaríku og skemmtilegu 30 ár. Þorsteinn sagði að við þessi tímamót rifjaðist upp margt skemmtilegt og deildi hann nokkrum skemmtilegum sögum með veislugestunum bæði frá upphafsdögum Samherja en einnig frá sandinum við björgun Baldvins Þorsteinssonar.
Einnig vék Þorsteinn Már að hápunktum frá rekstri síðasta árs. Hann sagði veiðar skipanna hafa gengið vel, afli Vilhelms Þorsteinssonar EA hafi undanfarin tvö ár verið sá mesti frá upphafi, Kaldbakur og Björgúlfur hafi aldrei veitt meira en á síðasta ári. Sömu sögu væri hægt að sega frá húsunum á Dalvík, Akureyri og Laugum. Þar hafi tekist að vinna meira magn af hráefni en nokkurn tímann áður, ekki fallið niður einn einasti dagur í vinnslu frá því 30. janúar 2013 og báðar stóru fiskvinnslurnar – á Dalvík og Akureyri – afrekuðu það líka á síðasta ári að taka yfir 100 tonn af fiski í gegnum vinnsluna á einum degi. „Að komast í þriggja stafa tölu á einum degi er ótrúlegt – og fyrirfram hefði ég talið það óhugsandi! Af þessu öllu er ég afskaplega stoltur“ sagði Þorsteinn Már.
Þorsteinn Már vék örfáum orðum að Seðlabankamálinu og sagði Seðlabankann ítrekað hafa komist í ógöngur með ásakanir sínar og rangfærslur í garð Samherja. Hann þakkaði starfsfólki Samherja fyrir ómetanlegan stuðning í þessari langvinnu baráttu, sem væri ekki lokið en það væri enginn vafi í sínum huga að fullnaðarsigur muni vinnast að lokum.
Að lokum sagði Þorsteinn Már:
Ég vil nota tækifærið, ágæta starfsfólk, og þakka ykkur sérstaklega fyrir ykkar stóra þátt í velgengni Samherja
á liðnum árum. Mikilvægt er að við búum ávallt yfir þeim kjarki og þeirri vitneskju sem þarf til að taka stórar
ákvarðanir sem færa okkur fram á veginn.
Þetta eru tilfinningar sem ekki verða teknar frá mér með tilefnislausum árásum og rógburði. Ég vona að þið haldið áfram að vera stolt af störfum okkar allra og horfið björtum augum fram á við. Saman höldum við ótrauð áfram að ryðja brautina í íslenskum sjávarútvegi".
Hér fyrir neðan má fá innsýn í hið glæsilega kvöld okkar Samherjafólks á myndum sem Þórhallur í
Pedrómyndum og Þórir Tryggvarson tóku:
Þorsteinn Már skálar við starfsmenn sína