Fjölmenni við móttöku- og skírnarathöfn hins nýja fjölveiðiskips Samherja

Vilhelm Þorsteinsson EA-11 leggst að bryggju í dag
Vilhelm Þorsteinsson EA-11 leggst að bryggju í dag
Fjölmargir bæjarbúar og aðrir gestir lögðu leið sína niður að togarabryggju Akureyrarbæjar í dag í blíðskaparveðri til að taka þátt í móttöku- og skírnarathöfn hins nýja fjölveiðiskips Samherja og samgleðjast þannig fyrirtækinu á þessum merku tímamótum. 
Athöfnin hófst um kl. 15 með því að skipið lagðist að bryggju.  Er óhætt að segja að hátíðlegt yfirbragð hafi verið yfir athöfninni frá og með þeirri stundu er tignarlegt skipið sigldi upp að viðlegukantinum undir lúðrablæstri.  Er landfestar höfðu verið bundnar fór fram skírnarathöfn og var skipinu gefið nafnið Vilhelm Þorsteinsson EA-11. Það var ekkja Vilhelms Þorsteinssonar, Anna Kristjánsdóttir, sem gaf skipinu nafn.  Eins og Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja kom inn á í ræðu sinni seinna í móttökuathöfninni er þessi nafngift á skipinu vel við hæfi þar sem Vilhelm markaði djúp spor í útgerðarsögu Akueyrarbæjar sem skipstjóri og síðar einn af aðal stjórnendum Útgerðarfélags Akureyringa til margra ára. 

Er skipið hafði verið blessað tók Davíð Oddsson forsætisráðherra til máls og bauð hann flaggskip Samherja og reyndar alls íslenska flotans að hans mati velkomið.  Vilhelm Þorsteinsson EA-11 var síðan formlega afhentur Samherja af forstjóra skipasmíðastöðvarinnar Kleven Verft AS og tók Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðasviðs við skjölum þess efnis úr höndum forstjórans.  Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri Akureyrar tók einnig til máls og bauð hann skipið velkomið.   Formlegri móttökuathöfn lauk síðan með ræðu Þorsteins Más Baldvinssonar og opnaði hann þau skip Samherja er þarna voru almenningi til sýnis.  Auk Vilhelms Þorsteinssonar EA-11 var þar Baldvin Þorsteinsson EA-10.  Höfðu þessi tvö skip sem eiga það sammerkt að vera bæði nýsmíðar Samherja siglt um pollin fyrir athöfnina til hátíðarbrigða.

Vilhelm Þorsteinsson EA-11 mun á allra næstu dögum halda til veiða.