Flæðilína sett upp á Stöðvarfirði

Þann 22. janúar síðastliðinn hófst vinnsla að nýju í frystihúsi Samherja á Stöðvarfirði, eftir talsverðar breytingar sem staðið hafa yfir að undanförnu. M.a. var sett upp fullkomin flæðilína fyrir vinnslu á bolfiski, með 16 snyrtistæðum og aðstöðu til niðurskurðar og gæðaskoðunar. Með breytingunum var verið að auka möguleika frystihússins í bolfiskvinnslu en samhliða voru frystitæki fyrir vinnslu uppsjávarfiska tekin niður.Magnús Helgason, frystihússtjóri á Stöðvarfirði, segir breytingarnar hafa tekist vel í alla staði. „Vinnslan hefur farið vel af stað og afköstin aukast dag frá degi. Eftir 1-2 mánuði gerum við ráð fyrir að taka upp einstaklingsbónus, líkt og tíðkast t.d. á Dalvík, sem ég tel að verði mikil framför, bæði fyrir starfsfólkið og fyrirtækið. Reynslan hefur sýnt að einstaklingsbónus skilar verulega auknum afköstum sé miðað við gamla hópbónuskerfið og hærri launum til starfsfólks," segir Magnús.

Betri vinnuaðstaða

Almennt segir Magnús starfsfólk mjög ánægt með nýju línuna og sérstaklega það hvað vinnuaðstaðan hefur batnað. Nú getur starfsfólk t.d. ráðið vinnuhæð sinni með þar til gerðum pöllum sem það stendur á. Einnig er stóll áfastur línunni og þannig getur starfsmaður ýmist staðið eða setið eftir því sem honum finnst þægilegra. Í tilefni þessara tímamóta var starfsfólki Samherja á Stöðvarfirði boðið á veitingastaðinn „Kútterinn" síðastliðið föstudagskvöld þar sem veitingum voru gerð góð skil.

Þess má að lokum geta að frystitækin sem tekin voru niður á Stöðvarfirði munu nýtast um borð í fjölveiðiskipum Samherja, Hannover og Þorsteini EA, sem á næstunni verða útbúin til vinnslu uppsjávarfiska um borð.