Flutningur á 600 þúsund lifandi laxaseiðum til Noregs

Nýlega  lauk rúmlega vikulöngu verkefni hjá Íslandsbleikju, dótturfyrirtæki Samherja hf., með því að skip með 600 þúsund lifandi laxaseiðum afhenti þau í kvíar í Kirkenes í Norður Noregi. Þetta er mesta magn af seiðum sem flutt hefur verið milli landa á þennan hátt en verðmæti farmsins er um 6 milljónir Norskra króna eða um 120 milljónir Íslenskra króna.Laxaseiðin voru alin í eldisstöð Íslandsbleikju í Grindavík og Íslandslaxi að Núpum í Ölfusi og eru um ársgömul, að meðaltali 100 gr að þyngd. Flutningurinn hófst 3. júlí með því að seiði voru flutt með bíl niður að bryggju í Þorlákshöfn og þaðan fleytt um borð í brunnbátinn Romaster frá Noregi.  Skipinu var síðan siglt til Grindavíkur þar sem seiðum  var dælt í gegn um plastlögn, út í skipið sem var staðsett um 400 metra frá landi og tók dælingin um sólarhring. Skipið er það stærsta sem er sérútbúið til þess að flytja lifandi fisk og flutningur á milli landa, með þetta mikið magn svo langa vegalengd, er einsdæmi. Jón Kjartan Jónson framkvæmdastjóri Íslandsbleikju hefur að sjálfsögðu fylgst með aðgerðinni frá byrjun. "Þetta var óneitanlega taugatrekkjandi vika, það var mikið í húfi að allt gengi upp. Flutningur á lifandi fiski er mjög vandasamur og má ekkert út af bregða, hvað þá í þessu magni og þessa löngu vegalengd", sagði Jón Kjartan þegar við náðum tali af honum. Dæling á seiðunum frá borði hófst strax og skipið kom til Kirkenes og eru seiðin nú í kvíum í Noregi þar sem þau eru alin í rúmt ár  til viðbótar áður en þau enda á borðun Evrópubúa, sem Norskur eldislax af Íslenskum ættum.