|
Í tilefni af veitingu Útflutningsverðlauna Forseta Íslands til Samherja hf. í maí sl. kom Hr. Ólafur Ragnar Grímsson ásamt eiginkonu sinni, frú Dorrit Moussaieff, og fulltrúum úthlutunar-nefndarinnar og Útflutningsráðs í heimsókn til Samherja í dag. Á móti gestunum tóku Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðar, ásamt hátt í 200 starfsmönnum Samherja hf.
Frú Dorrit Moussaieff kynnir sér störf starfsmanna Strýtu af áhuga |
Leiðin lá fyrst til Dalvíkur (Snæfell) þar sem forseti og fylgdarlið skoðuðu húsakynnin, framleiðsluna og síðast en ekki síst heilsuðu upp á starfsmenn. Því næst var farið um borð í Akureyrina EA þar sem Guðmundur Freyr Guðmundsson tók á móti hópnum og sýndi skipið. Að því búnu var farið í formlega móttöku í pökkunarsal Snæfells. Hr. Ólafur Ragnar og fylgdarlið hans voru boðin innilega velkomin af Þorsteini Má fyrir hönd fyrirtækisins og starfsmanna (ræða Þorsteins Más). Forseti ávarpaði viðstadda og m.a. lýsti yfir ánægju sinni með að fá þetta tækifæri til að hitta þá starfsmenn sem ekki komust suður í vor til að vera við verðlaunaafhendinguna. Allir viðstaddir þáðu síðan veitingar.
Leiðin lá síðan aftur til Akureyrar, í rækjuverksmiðjuna Strýtu. Þar fengu forseti og fylgdarlið ekki síðri móttökur og skoðuðu framleiðslu og hittu starfsmenn.
Meðfylgjandi myndir tók Rúnar Þór Björnsson, ljósmyndari.
Um borð í Akureyrinni EA 110 í Dalvíkurhöfn Starfsmenn njóta veitinga með gestunum |