Frá framhaldsaðalfundi Samherja hf.

Á framhaldsaðalfundi Samherja hf., sem haldinn var í dag 7. júní 2005, mættu fulltrúar fyrir 93,26% hlutafjár. Eftirtaldir voru kosnir í stjórn Samherja á fundinum: ...


Finnbogi Jónsson fráfarandi stjórnarformaður Samherja og Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri kveðjast eftir 5 ára farsælt samstarf.

Á framhaldsaðalfundi Samherja hf., sem haldinn var í dag 7. júní 2005, mættu fulltrúar fyrir 93,26% hlutafjár. Eftirtaldir voru kosnir í stjórn Samherja á fundinum:

Eiríkur S. Jóhannsson
Óskar Magnússon,
Jón Sigurðsson,
Jóhannes Geir Sigurgeirsson og
Kristján Vilhelmsson

Til vara í stjórn voru kosnir:
Aðalsteinn Helgason og Guðmundur Baldvin Guðmundsson

Finnbogi Jónsson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn en hann hefur verið starfandi stjórnarformaður Samherja frá 1. júní árið 2000, fyrstu þrjú árin í fullu starfi en síðustu tvö árin í hlutastarfi samhliða starfi sem framkvæmdastjóri SR-Mjöls hf. Samherji þakkar Finnboga farsæl störf í þágu félagsins á liðnum árum.

Á fundinum var samþykkt að halda hluthafafund í haust þar sem lögð verður fram tillaga um að fækkað verði í stjórn félagsins úr 5 í 3 og áfram verði 2 varamenn.

Endurskoðandi Samherja hf. var kosinn Arnar Árnason, KPMG Endurskoðun á Akureyri.

Þóknun til stjórnarmanna var samþykkt kr. 80.000.- á mánuði fyrir starfsárið 2005-2006.

Á fundinum var samþykkt tillaga með vísan til 55. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995, að heimila félagsstjórn á næstu 18 mánuðum að kaupa bréf í Samherja hf. að nafnvirði allt að kr. 166.000.000,- . Kaupverð bréfanna má verða allt að 10% yfir meðal söluverði, skráðu hjá Kauphöll Íslands á síðasta tveggja vikna tímabili áður en kaupin eru gerð. Í þessu skyni er félagsstjórn heimilt að ráðstafa allt að kr. 1.660.000.000,-. 

Stjórn félagsins kom saman í kjölfar aðalfundar og skipti með sér verkum þannig að Eiríkur S. Jóhannsson er stjórnarformaður, Óskar Magnússon varaformaður og Jón Sigurðsson er ritari.

Á framhaldsaðalfundi Samherja kvöddu nokkrir einstaklingar sér hljóðs, sem nú hverfa úr stjórn félagsins.

Finnbogi Jónsson, fráfarandi stjórnarformaður, sagðist vilja nota tækifærið og þakka samstarfsmönnum hjá Samherja fyrir samstarfið. Hann sagði að árin sín 5 í stjórn Samherja hefðu verið viðburðarrík, sem sæist best á því að umsvifin aukist mjög mikið og veltan fjórfaldast. Margir merkir viðburðir kæmu upp í hugann og þar nefndi hann m.a. sameiningu Samherja og Snæfells, sem hefði markað ákveðin þáttaskil í landvinnslu félagsins; vinnslu á uppsjávarfiski úti á sjó sem hefði í för með sér stóraukna verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið; kaup Samherja á hlut í Síldarvinnslunni hf. og síðar vel heppnaða sameiningu Síldarvinnslunnar og SR-Mjöls hf.; þáttöku í Kaldbaki hf. og fjárfestingar þess félags sem hefðu reynst Samherja arðbærar; tilraunir Samherja á sviði fiskeldis og síðast en ekki síst stóraukin erlend umsvif Samherja sem hefðu allt að þrefaldað aflaheimildir Samherja og tengdra félaga á fimm árum.

Finnbogi sagði að það væri mikil eftirsjá í Samherja af markaði, bæði fyrir markaðinn sjálfan og sjávarútveginn í heild sinni en ákvörðunin væri skiljanleg. Hann sagðist að lokum vona að Samherja vegnaði vel í framtíðinni og endurtók þakkir sínar  til stjórnar, forstjóra og starfsmanna fyrir liðin ár.

Kristján Þór Júlíusson, fundarstjóri, þakkaði, fyrir hönd fundarmanna, Finnboga störf hans í þágu Samherja á liðnum árum og óskaði honum velfarnaðar í framtíðinni.

Gunnar Felixson sagðist vilja þakka Samherja fyrir samfylgdina frá stofnun þess félags.  Hann minntist þess þegar tveir Samhejafrænda komu á skirfstofuna til hans og báðu hann að tryggja lán fyrir skipi sem þeir væru að skoða að kaupa. “Ég svaraði jákvætt og taldi þetta örugga menn.” Hann sagði það allt hafa gengið eftir og samskipti verið farsæl allar götur síðan, þótt á ýmsu hafi gengið tryggingalega. “Ég þakka fyrir að hafa getað fylgst með stækkun þessa félags, sem er í forystu í íslenskum sjávarútvegi.

Kristján Jóhannsson sagðist vilja nota tækifærið og þakka fyrir skemmtileg kynni, sem hefðu hafist fyrir 10 árum þegar hann átti sæti í dómnefnd sem valdi 500 framsæknustu fyrirtæki í Evrópu. Samherji var í þeim hópi og er enn þann dag í dag frumkvöðlafyrirtæki í alþjóðlegum sjávarútvegi. Kristján sagðist óska félaginu alls góðs í framtíðinni.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, þakkaði góð orð í garð Samherja. Hann sagðist hafa þekkt Finnboga Jónsson alla tíð og þakkaði honum ágætt og árangursríkt samstarf. Gunnari Felixson hefði hann þekkt í 25 ár, aldrei rifist við hann og alltaf hlýtt úrskurðum hans varðandi tjónabætur og annað - og litið svo á að þeim yrði ekki áfrýjað!  Kristjáni Jóhannssyni þakkaði hann skemmtileg kynni og ánægjulegt samstarf.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson, sem situr áfram í stjórn Samherja, lauk umræðum á þessum framhaldsaðalfundi með því að þakka Gunnari og Kristjáni samstarfið en  sérstaklega Finnboga Jónssyni. Hann sagði að Finnbogi væri einstakur diplómat og sáttasemjari og hann óskaði honum alls góðs í framtíðinni