- fjölmennasta árshátíð Samherja til þessa að baki
Árshátíð Samherja var haldin laugardaginn 25. mars sl. í Íþróttahöllinni á Akureyri og tókst hún vonum framar. Um var að ræða einhverja fjölmennustu árshátíð sem haldin hefur verið norðan heiða, en á milli 700 til 800 gestir mættu á hana.
Gleðin var við völd og voru gestir hátíðarinnar einhuga um að njóta kvöldsins saman. Árshátíðargestir nutu góðra veitinga sem kokkar og þjónustufólk Bautans töfruðu fram af alkunnri snilld. Skemmtikraftar fóru á kostum og það sama má segja um veislustjóra kvöldsins, Sigmund Erni Rúnarsson.
Meðal skemmtikrafta, sem fram komu á árshátíðinni, má nefna hinn einna sanna Ladda, sem framdi grín undir undirleik Hjartar Howser. Hjörleifur Valsson spilaði á fiðlu og Hulda Björk Garðarsdóttir og Davíð Ólafsson sungu nokkur lög, en um undirspil sá Vignir Stefánsson. Þá lék hljómsveitin Saga Class fyrir dansi fram á rauða nótt. Ekki má gleyma sjálfum veislugestunum; starfsmönnum Samherja og dótturfélaga, ásamt mökum. Veislugestirnir létu ekki sitt eftir liggja. Þeir tóku vel undir í fjöldasöngnum og sýndu flotta takta á dansgólfinu.
Þar sem slíkur fjöldi starfsmanna Samherja var samankominn á einum stað var tækifærið notað og myndir teknar af hverri deild innan fyrirtækisins fyrir sig.
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem teknar voru á árshátíðinni og tala þær sínu máli um skemmtanagildi kvöldsins.
Myndirnar vour teknar af: Finnboga Marinóssyni og Þórhalli Jónssyni