Framleiðslumet sett í Strýtu

Landvinnsla Samherja á Akureyri eða
Landvinnsla Samherja á Akureyri eða "Strýta"
eins og vinnslan er nefnd dags daglega
Nýtt framleiðslumet í rækjuvinnslunni var sett í liðinni viku þegar framleidd voru rúm 105 tonn af pillaðri rækju. Aðeins tvisvar áður hefur vikuframleiðslan farið yfir 100 tonn, mest 103 tonn í mars á þessu ári.Meðalframleiðsla í síðustu viku var 1.320 kg/klst af afurðum og má segja að komið sé nálægt efri mörkum í framleiðslugetu verksmiðjunnar að sögn Gests Geirssonar framleiðslustjóra. "Þegar verksmiðjunni var breytt fyrir tveimur árum var fjárfest í frystum, flokkurum og öðrum búnaði miðað við að framleiðslan yrði að hámarki 1.500 kg/klst. Hinsvegar var ekki reiknað með að ná þessum afköstum án þess að breyta suðupottum og fjölga pillunarvélum. Ástæðan fyrir þessari miklu framleiðslu núna er fyrst og fremst frábært starfsfólk eins og svo oft áður. Einnig var verið að vinna mjög góða rækju úr Barentshafi sem var keypt á uppboði í Noregi," segir Gestur.

Góð sala að undanförnu

Hann segir birgðastöðu afurða framan af árinu hafa verið áhyggjuefni og því hafi verið gerðar áherslubreytingar í sölumálunum nú á vormánuðum. Fjölgað var um einn sölumann á skrifstofu Seagold í Bretlandi og einbeitir nýi starfsmaðurinn sér að því að selja rækju. "Sala undanfarið hefur verið ágæt og í raun það góð að ákveðið hefur verið að fresta því um einhvern tíma að fara á eina vakt í rækjuverksmiðjunni," segir Gestur en tekur jafnframt fram að lágt afurðaverð sé áhyggjuefni. Verðið sé nú svo lágt að naumast verði gert út á rækju með viðunandi hætti. "Samherji hefur ekki séð ástæðu til að gera út stórt frystiskip á rækju eins og hráefnisverðið er en þess í stað hefur rækjuvinnslan keypt meirihlutann af sínu hráefni á markaði bæði í Noregi og Kanada. Við höfum hinsvegar gert samninga við sjö báta um að veiða fyrir okkur ferskrækju og nýtum þannig stóran hluta af rækjuveiðiheimildum okkar hér við land. Verð á ferskri rækju hefur verið óbreytt í þrjú ár meðan frosin iðnaðarrækja hefur fallið í verði um tugi prósenta. Í augnablikinu er hagstæðara að kaupa frosna iðnaðarrækju erlendis frá frekar en ferska rækju hér innanlands, en Samherji hefur litið svo á að fyrirtækið verði að nýta veiðiheimildir sínar hér við land og það verður ekki gert nema að greiða bátunum þannig að rekstur þeirra borgi sig," segir Gestur Geirsson.