Framleiðslumetið á Dalvík tvíbætt

Frystihús Samherja á Dalvík
Frystihús Samherja á Dalvík
Vinnsla í frystihúsi Samherja á Dalvík hefur gengið mjög vel að undanförnu. Í síðustu viku var framleiðslumet ársins t.d. bætt í tvígang, fyrst á miðvikudaginn þegar unnið var úr 37,4 tonnum af hráefni og síðan aftur daginn eftir en þá voru unnin 37,5 tonn. Að sjálfsögðu var starfsfólki boðið upp á rjómatertu báða dagana af þessu tilefni.Að sögn Gunnars Aðalbjörnssonar, frystihússtjóra, má bæði þakka þennan góða árangur því að hráefnið var einkar gott og einnig er um að ræða afrakstur átaks sem miðar að auknum afköstum í frystihúsinu. „Hér hefur verið mikið að gera allt þetta ár og frá því í janúar höfum við unnið á vöktum, 12 tíma á sólarhring í stað 8 tíma áður. Við byrjum klukkan 3 á nóttunni og vinnum til kl. 3 á daginn," segir Gunnar. Um 130 manns starfa við landvinnsluna á Dalvík.

Verðmætar afurðir

Frystihúsið á Dalvík er sérhæft fyrir vinnslu á bolfiski og miðast vinnslan við að skapa sem mest verðmæti úr hráefninu. Fiskurinn er roð- og beinhreinsaður og skorinn í bita. Hluti afurðanna fer á smásölumarkað í litlum pakkningum og hluti á svokallaðan veitingahúsamarkað erlendis. Hráefni frystihússins kemur frá þeim fjórum ísfiskskipum sem Samherji gerir út en þau sjá einnig um að afla hráefnis fyrir frystihús Samherja á Stöðvarfirði, Fiskiðjusamlag Húsavíkur og Síldarvinnsluna á Neskaupstað.