Framtíðaráform Samherja hf. og Oddeyrar ehf. í fiskeldi

Frá Mjóafirði
Frá Mjóafirði
Í kjölfar þeirra ákvarðana, sem teknar hafa verið í ríkisstjórn Íslands varðandi aðgerðir tengdar fiskeldi, hefur Samherji hf. í gegnum dótturfélag sitt Oddeyri ehf. ákveðið að draga minna úr umsvifum sínum fiskeldi hérlendis en áður hafði verið ákveðið.

 

“Það er okkur, sem að þessum málum komum, mikið gleðiefni að stjórnvöld skuli reyna að skapa umhverfi sem auðveldar fyrirtækjum í fiskeldi kleift að gera úrslitatilraun til að skjóta stoðum undir öflugt fiskeldi á Íslandi. Við fögnum því samstillta átaki þriggja ráðuneyta, sem nú hefur verið kynnt, og þeirri framsýni sem hér er sýnd,” segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. 

Almennar forsendur
Það er mat okkar að seiðaeldi og kynbætur séu grunnurinn að öllu arðsömu eldi. Með veglegum stuðningi ríkisins við kynbætur í þorskeldi og áframhaldandi stuðningi yfirvalda við starfsemi Hólaskóla aukast líkurnar á því að við Íslendingar náum tökum á framleiðslu fyrsta flokks þorskseiða og jafnframt er líklegt að gæði bleikjuseiða muni halda áfram að aukast. Gæði eru grundvöllur arðsemi í öllu fiskeldi og í kjölfar þessara ákvarðana mun Oddeyri, í gegnum Sæsilfur í Mjóafirði, taka yfir tilraunaframleiðslu Síldarvinnslunnar á sviði þorskeldis. Í kjölfarið verður sú starfsemi flutt til Mjóafjarðar og efld. Samhliða er stefnt að því að setja út laxaseiði í Mjóafirði vorið 2007.

 

 

Yfirlýsingar er varða raforkuverð til landstöðva í fiskeldi í framtíðinni skipta gríðarlegu máli fyrir rekstur og fjárfestingar í landstöðvum. Samþykkt ríkisstjórnarinnar þar að lútandi skapar tækifæri til að fjárfesta í landstöðvum og lækka þannig framleiðslukostnað þeirra og skjóta jafnframt stoðum undir rekstur þeirra, sem hefur gengið erfiðlega undanfarið.  

Á Suðurnesjum stefnir Oddeyri í samstarfi við aðra aðila að uppbyggingu umfangsmikils bleikjueldis. Íslendingar hafa um árabil haft sérstöðu hvað varðar framleiðslu á bleikju og nú er ætlunin að auka framleiðsluna og tryggja stöðugt framboð bleikju á markaði. Með aðkomu yfirvalda að markaðsetningu bleikju á erlendum mörkuðum er stutt veglega við mikilvægan þátt í ferlinu sem allir framleiðendur njóta góðs af.

Oddeyri hefur ákveðið að fjárfesta í 4.000 fermetra nýbyggingu í til flatfiskaeldis í Öxarfirði og gera þar tilraun með arðsemi lúðueldis. Silfurstjarnan í Öxarfirði hefur verið einn stærsti atvinnurekandinn á sínu svæði og uppbygging þar skiptir miklu máli fyrir allt þetta atvinnusvæði. Vilji til að semja um raforkuverð til langs tíma og væntanleg aðkoma Byggðastofnunar að fjármögnun eru lykilatriði varðandi þessa fjárfestingu.

Oddeyri stefnir að því að verða leiðandi aðili á heimsvísu hvað varðar gæði og framleiðslukostnað í eldi á bleikju og lúðu.

Bleikja
Undanfarin ár hefur verið ágætur vöxtur í framleiðslu eldisbleikju hérlendis. Samhliða hefur verið unnið að kynbótum á stofninum á hjá tveimur aðilum hérlendis og gæði eldisstofnsins fara batnandi. Það er markmið okkar að slátra helmingi framleiðslunnar í um eins kílós þyngd tveimur árum eftir að startfóðrun hefst. Þessum árangri höfum við náð á yfirstandandi ári með einstaka hópa en kynbætur eru lykilatriði til að ná sambærilegum árangri hvað varðar framleiðsluna í heild.

Íslendingar hafa sérstöðu í eldi sjávarbleikju vegna mikils aðgangs að ósöltu vatni í stórum landstöðvum. Slíkur aðgangur er ekki algengur hjá samkeppnisþjóðum okkar og takmarkar vöxt annarra landa í eldi þessarar tegundar. Fyrir vikið höfum við ákveðna sérstöðu á heimsmarkaði og hana verðum við að vernda með öflugu markaðsstarfi. Með stækkun markaðarins munum við jafnframt getað aukið eldi okkar hérlendis. 

Oddeyri mun verða með bleikjueldi á þremur stöðum á landinu: Í Öxarfirði, á Stað í Grindavík og á Vatnsleysu. Seiði fyrir eldið verða alin í 4 seiðastöðvum og vinnsla fyrir ferskar og frystar bleikjuafurðir frá félaginu verður í Grindavík. Hrogn og smáseiði verða keypt af Stofnfiski og Hólaskóla en báðir aðilar hafa unnið mikið starf á sviði kynbóta í bleikju. Það er mat okkar að með þessum stöðvum munum við ná að byggja upp öflugt og gott bleikjueldi, sem muni framleiða gæðaafurðir fyrir erlendan markað allt árið um kring.

Lúða
Fiskeldi Eyjafjarðar (FISKEY) hefur um árabil veri stærsti framleiðandi lúðuseiða í heiminum. Nokkrir rekstrarörðugleikar hafa verið hjá félaginu undanfarin ár af ýmsum ástæðum. FISKEY hefur nú hætt matfiskaeldi á landi en snúið sér þess í stað einvörðungu að kynbótum og seiðaeldi á lúðu þar sem FISKEY er óumdeilt besti framleiðandi lúðuseiða í heiminum. 

Tilraunir með matfiskaeldi á lúðu í Öxarfirði hafa gengið mjög vel og er vöxtur lúðu þar með því besta sem þekkist. Eldi lúðu frá 5 gramma stærð í 3ja kílóa sláturstærð tekur rúm tvö ár, sem er einu ári styttri tími en aðrar tilraunir, sem gerðar hafa verið hérlendis.

Í Öxarfirði er stefnt að því að ala a.m.k. 300 tonn af lúðu árlega og vera í nánu samstarfi við FISKEY varðandi kynbætur og val á klakfiski. Með þessu samstarfi teljum við að FISKEY hafi tryggan aðgang að klakfiski og öllum upplýsingum varðandi áframeldið sem er fyrirtækinu nauðsynlegt. Í Öxarfirði nýtum við okkur kosti jarðvarma og sjógæða til að reka arðsamt matfiskaeldi á lúðu.

Þorskur
Ljóst er að nokkur ár eru enn í að aleldi á þorski verði arðsamt hérlendis. Íslendingar eru þorskveiðiþjóð og hafa mikla þekkingu á vinnslu og markaðssetningu þorsks. Þar liggja bæði verðmæti og tækifæri hvað þorskeldi varðar og við höfum fulla trú á því að þessi grein eldis þurfi að vera stór hér á landi í framtíðinni. Með veglegri aðkomu ríkisins að þróun í seiðaframleiðslu til langs tíma höfum við ákveðið að færa þorskeldi Síldarvinnslunnar inn í Sæsilfur með eflingu í huga og taka þannig þátt í þorskeldi. 

Lokaorð
Samherji hf., í gegnum dótturfélag sitt Oddeyri ehf., hefur nú um 5 ára skeið tekið þátt í fiskeldi á Íslandi. Á þeim tíma hefur félagið reynt að byggja upp iðnað hérlendis sem væri samkeppnisfær á heimsvísu. Nær allan þann tíma hefur blásið hraustlega á móti í þessari atvinnugrein, af ýmsum ástæðum. Raunar var svo komið að við drógum úr umsvifum Samherja á þessu sviði. Þátttaka í fiskeldi hefur reynst Samherja hf. mjög kostnaðarsöm og tap hefur verið á rekstri fiskeldisfélaganna undanfarin ár. Þeir fjármunir sem þar hafa tapast hafa nýst öðrum vel og skapað fjölmörg störf, m.a. í upplýsinga- og tækniiðnaði. Með aðgerðum ríkisvaldsins nú skapast möguleikar á að setja atvinnugreininni ný og raunhæf markmið. Sem fiskveiðiþjóð í fremstu röð verðum við Íslendingar að stórefla fiskeldi til að halda stöðu okkar í framtíðinni.


Fréttatilkynning frá Samherja hf. 18. apríl 2006.
Nánari upplýsingar veitir Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Fiskeldis Samherja hf., í síma 460 9000.