"Það er komin upp sú staða að Íslendingar verða að ákveða hvort þeir ætla að verða þátttakendur í fiskeldinu eða ekki. Ef við fáum fiskeldið ekki til að ganga fljótlega, held ég að við missum einfaldlega af lestinni." Þetta kom fram í ítarlegu viðtali við Þorstein Má Baldvinsson forstjóra Samherja sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 30. júní. Þar ræddi Þorsteinn Már um sjávarútvegsmálin vítt og breitt frá ýmsum hliðum, starfsemi Samherja, framtíðarsýn félagsins og fleira.
Hér að neðan er hluti viðtalsins, þar sem Þorsteinn Már ræðir um fiskeldi og þátttöku Samherja og annarra íslenskra fyrirtækja í því. Hann var meðal annars spurður að því hvers vegna hann hefði svo mikla trú á fiskeldinu sem raun ber vitni, þrátt fyrir fyrri hrakfarir Íslendinga á því sviði.
"Ég held að það sé svipað með fiskeldið og ýmislegt annað. Þekkingin hefur aukizt gríðarlega. Fiskeldið í heiminum á í framtíðinni eftir að skila meiru en fiskveiðarnar. Í Noregi var útflutningsverðmæti laxaafurða töluvert meira en samanlagt útflutningsverðmæti á botnfiski og rækju á síðasta ári.
Miklar framfarir hafa átt sér stað í laxeldi á undanförnum árum með kynbótum, betra fóðri og bættum eldisaðferðum. Fyrir vikið vex laxinn hraðar í dag en áður og vex betur við lægra hitastig. Menn eru einfaldlega orðnir mjög góðir í því að ala og framleiða lax. Þetta er góð og holl afurð sem selst í miklu magni. Það er því að okkar mati eðlilegra að fara í laxeldið en margt annað, sem er verið að þróa. Þarna er mesta þróunarvinnan að baki og markaðir til staðar og vaxandi. Menn kunna að framleiða lax og það er okkar að sækja þessa þekkingu.
Verðum að taka þátt í eldinu
"Það er komin upp sú staða að Íslendingar verða að ákveða hvort þeir ætla að verða þátttakendur í fiskeldinu eða ekki. Ég held að við verðum ekkert stór sjávarútvegsþjóð eftir 10 til 20 ár nema við tökum þátt í eldinu. Annars munu aðrar þjóðir einfaldlega bruna langt fram úr okkur. Við Íslendingar erum góðir í því að veiða fisk og framleiða afurðir úr honum. Sú þekking mun auðvitað nýtast við framleiðslu á laxinum. Það mun verða þýðingarmikið við sölu á sjávarafurðum að geta boðið upp á lax líka. Við getum þá þjónað viðskiptavinum okkar betur með meira úrvali af afurðum.
Þekkingin á flestum sviðum er því til staðar, en auk þess höfum við greiðan aðgang að fiskimjöli og lýsi til fóðurframleiðslu. Það tel ég verulegan styrk. Ekki er ósennilegt að nánast öll lýsisframleiðsla fari til fóðurgerðar fyrir fiskeldi í framtíðinni. Krafan um rekjanleika matvæla eykst stöðugt. Það getur því orðið tiltölulega auðvelt fyrir okkur að rekja framleiðslu á eldislaxi allt frá veiðum á uppsjávarfiski í gegnum vinnsluna á mjöli og lýsi, fóðurframleiðsluna, eldi og vinnslu á laxinum. Ef við fáum fiskeldið ekki til að ganga fljótlega, held ég að við missum einfaldlega af lestinni."
Setja út seiði fyrir 4.000 tonna framleiðslu
Hver eru markmið Sæsilfurs og tengdra félaga um framleiðslu á næstu árum?
"Litið til næstu fimm ára hljótum við að setja markið við 12.000 til 15.000 tonn af laxi á ári. Sæsilfur er þessa dagana að setja út laxaseiði fyrir allt að 4.000 tonna framleiðslu, en á síðasta ári var settur út fiskur fyrir 800 tonna framleiðslu.
Aðrar tegundir koma svo í kjölfarið í einhverjum mæli. Það er alveg ljóst að þorskeldi mun verða einhver ár í þróun og það mun kosta mikla fjármuni. Ég hef ekki trú á því að nægjanlegir fjármunir verði settir í þorskeldi hér á landi til við verðum leiðandi á því sviði. Norðmenn eru að leggja geysilega mikið fé í þorskeldið og ég held að þeir verði á undan okkur í því. Við munum því í framtíðinni þurfa að sækja þekkingu á þorskeldi til Norðmanna eins og í laxeldinu. Ég sé því fyrir mér að þróunin verði sú að uppsjávarfiskurinn verði fluttur að hluta til út í formi laxaafurða eða annars eldisfisks og verðmætin aukin með því.
Við þurfum líka að velta fyrir okkur þróun á neyzlumynstri fólks almennt. Það er ljóst að neyzla á ferskum afurðum hefur vaxið gríðarlega, bæði hér á landi og erlendis. Það hefur gengið mjög vel að svara þessari eftirspurn í laxinum. Dreifileiðir eru mjög góðar og afurðir frábærar. Það má taka dæmi um lax sem alinn er í Norður-Noregi og er kominn í dreifingu í Kína um tveimur sólarhringum eftir að honum er slátrað. Það sem laxinn hefur fram yfir þorskinn er að meira hefur verið lagt í dreifileiðir og markaðssetningu," segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.