Fjögurra sólarhringa loðnutúr Vilhelms Þorsteinssonar EA-11:
Tæplega 600 tonn af loðnu voru fryst um borð í Vilhelm Þorsteinssyni EA frá því á fimmtudags-kvöld og þar til í morgun. Guðmundur Jónsson, skipstjóri, segir að áhöfnin hafi verið vel samstillt í í frystingunni og hún því gengið hratt og örugglega.
“Við fórum út frá Norðfirði seinnipartinn sl. fimmtudag og veiddum 8-900 tonn á miðunum austur af Langanesi á föstudeginum. Fórum síðan inn á Reyðarfjörð og vorum þar á meðan við vorum að frysta aflann. Klukkan átta í gærkvöld var byrjað að skipa upp frystu loðnunni á Reyðarfirði, 570 tonnum og því var lokið klukkan sex í morgun. Um 30% aflans var síðan landað til bræðslu á Norðfirði,” segir Guðmundur og bætir við að mikilvægt sé að nýta tímann vel og ná að frysta sem mest af loðnu fyrir Rússlandsmarkað. “Í ljósi minni loðnukvóta er afar mikilvægt að gera eins mikið verðmæti úr loðnunni og frekast er kostur. Skip eins og Vilhelm Þorsteinsson nýtist mjög vel í þessa vinnslu,” segir Guðmundur