Fullur salur á fyrirlestri og kynningu á eldisbleikju í Bandaríkjunum

Vel heppnuð kynning á bleikju í einum virtasta matreiðsluskóla í heimi, The Culinary Institute of America

Einar Geirsson meistarakokkur á Rub 23 og Birgir Össurarson sölustjóri hjá Icefresh (og sérlegur meistarahjálparkokkur!) voru í Bandaríkjunum í vikunni að kynna bleikju. 

Birgir hélt fyrirlestur um bleikju og bleikjueldi í einum virtasta kokkaskóla í heimi: The Culinary Institute of America, fyrir fullum sal af kokkum og kokkanemum. Á eftir fyrirlestri Birgis eldaði Einar 6 mismunandi bleikjurétti úr einu flaki!  Þar á meðal djúpsteikti hann roðið.  Að lokum var öllum 150 gestunum boðið að smakka bleikjuréttina, við mjög mikla hrifningu. 

img_7782_330“Við eigum von á því að þeir kokkar og verðandi kokkar sem sátu fyrirlesturinn taki þessar frábæru uppskriftir með sér á sína veitingastaði og að fleiri fái tækifæri til að smakka á þessum úrvalsfisk” sagði Birgir við heimkomuna. Í framhaldi af heimsókninni verður haldin keppni innan skólans um bestu bleikju uppskriftina.  Þeir þrír kokkar með bestu uppskriftirnar verða valdir til að elda á Boston Seafood Show í mars n.k. og verður einn af þeim valinn til að koma til Íslands næsta sumar.