Fundað um stöðu útgerðar og fiskvinnslu á Eyjafjarðarsvæðinu

Framkvæmdastjórar sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu og fulltrúar Samherja hf. komu saman til fundar í gær til að ræða stöðu sjávarútvegs á Eyjafjarðarsvæðinu. Framkvæmdastjórar sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu og fulltrúar Samherja hf. komu saman til fundar í gær til að ræða stöðu sjávarútvegs á Eyjafjarðarsvæðinu.

Á fundinum var m.a. farið yfir það hversu mikil skerðing hefði orðið á aflahlutdeild til skipa á Eyjafjarðarsvæðinu frá því að aflamark var tekið upp og til þessa dags og þau áhrif sem þessi skerðing hefði haft á atvinnulífið.



Myndrún

Til marks um þá miklu skerðingu sem orðið hefur má nefna að árið 1991 voru úthlutaðar aflaheimildir til skipa á Eyjafjarðarsvæðinu rúm 24.500 tonn í þorski.  Miðað við fiskveiðiárið 2004-2005 hafa þessar heimildir skerst um rúm 19%, eða um 4.700 tonn. Á þessum árum var Ýsan 6.500 tonn og hún hefur skerst um tæp 16% á sama tímabili.  Í Ufsa var úthlutunin 5.000 tonn og hefur skerst um 7%.   Skerðingin hefur til dæmis verið vegna tilfærslu stjórnvalda á aflaheimildum yfir á smáfiskibáta og í línuívilnun, einnig bóta til sérvalinna vegna minnkunnar á rækjuafla. Sambærileg skerðing á aflaheimildum steinbít frá árinu 1996 til þessa dags er rúm 26%.

Nefnt var dæmi um breytingar á aflahlutdeild hjá tilteknu skipi á Eyjafjarðarsvæðinu, sem hefur verið á aflamarki frá árinu 1984. Það skip hefur nú einungis 57,8% af þeirri aflahlutdeild í þorski sem það hafði fyrir tveimur áratugum.

Samdráttur í rækjuafla skipa, sem leggja upp á Eyjafjarðarsvæðinu, er enn meira sláandi. Aflinn nam rúmlega 20.000 tonnum árið 1996 en fiskveiðiárið 2003-2004 var hann einungis um 2.000 tonn, eða 10 sinnum minni! Það þýðir að nánast allt hráefni til rækjuvinnslu á svæðinu er nú keypt annars staðar frá.

Á fundinum var rætt almennt um stöðu útgerðar og fiskvinnslu á Eyjafjarðarsvæðinu og þau áhrif sem síendurteknar skerðingar á aflahlutdeild til skipa á þessu svæði hafa á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja á svæðinu og atvinnulíf þess í heild sinni.

Margt sem kemur á óvart
“Þetta var góður fundur og mjög upplýsandi fyrir okkur sveitarstjórnarmenn. Þótt ég telji mig vel að mér í sjávarútvegsmálum kom ýmislegt á fundinum mér á óvart,” sagði Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, að fundi loknum.


Málin rædd á fundinum. Talið frá vinstri: Valdimar Bragason, bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð; Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps; Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja; Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja; Stefanía Traustadóttir, bæjarstjóri í Ólafsfirði; Bjarni Kristinsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri. Á myndina vantar Aðalstein Helgason hjá Samherja.

Hann sagði að samdráttur í rækjuveiðum á Eyjafjarðarsvæðinu á tæplega 10 ára tímabili jafngilti fækkun um 300 störf, þar af um 150 sjómannsstörf og 150 störf í landi. “Að auki nemur samdráttur í úthlutun aflaheimilda til skipa á bolfiskveiðum tugum prósenta á undanförnum 20 árum. Þetta segir auðvitað sína sögu um þann mikla samdrátt sem orðið hefur í sjávarútvegi á Eyjafjarðarsvæðinu. Það er einfaldlega ekki rétt sem margir stjórnmálamenn og fleiri halda fram að í Eyjafirði sé allt í lukkunnar velstandi á sviði sjávarútvegs,” sagði Kristján Þór ennfremur. Hér hafi menn þurft að taka á sig umtalsverða skerðingu, ekki síður en íbúar margra annarra landshluta.

Þurfum að standa vörð um sjávarútveginn
Ég vona að þessi fundur opni augu okkar sem hér búum á nauðsyn þess að standa vörð um sjávarútveginn á Eyjafjarðarsvæðinu. Það hafa þegar tapast gríðarlega mörg störf vegna ákvarðana stjórnvalda og við megum ekki við frekari áföllum í þeim efnum. Þeim skilaboðum þurfum við að koma til þingmannanna okkar og við öll hin þurfum að standa saman, hvort sem um er að ræða okkur sveitarstjórnarmenn, forsvarsmenn sjómanna og annarra starfsmanna í sjávarútvegi eða aðra íbúa á svæðinu,” sagði Kristján Þór Júlíusson að lokum.