Fyrirtækjaskóli Samherja tekinn til starfa

Mikil vakning hefur orðið í íslensku samfélagi undanfarin ár hvað varðar mikilvægi þess að bæta stöðugt við sig þekkingu. Samherji hefur undanfarin ár boðið ýmsum starfsmönnum sínum að sækja námskeið af margvíslegum toga, sem ýmist hafa nýst þeim í leik eða starfi...

Mikil vakning hefur orðið í íslensku samfélagi undanfarin ár hvað varðar mikilvægi þess að bæta stöðugt við sig þekkingu. Samherji hefur undanfarin ár boðið ýmsum starfsmönnum sínum að sækja námskeið af margvíslegum toga, sem ýmist hafa nýst þeim í leik eða starfi. Námsframboð innan fyrirtækisins hefur þó verið fremur takmarkað til þessa og oft hefur verið treyst á að starfsmenn hafi frumkvæði að því að óska eftir tilteknum námskeiðum. Með Starfsmannaskóla Samherja, sem nú er að hefja göngu sína, verður veruleg breyting hér á til hins betra. Markmiðið með starfrækslu skólans er að stuðla að og hvetja til sí- og endurmenntunar innan Samherja.

Þrenns konar námskeið í boði
Námskeiðunum, sem í boði eru, er skipt í þrjá flokka: Starfstengd námskeið, persónuleg námskeið og tómstundanámskeið.


Auður Filippusdóttir launafulltrúi dreifir námsskránni til starfsmanna í rækjuverksmiðjunni Strýtu

Starfstengdu námskeiðin fela í sér þjálfun og undirbúning vegna sértækra verkþátta eða gæða- og öryggismála og greiðir Samherji kostnaðinn við þau námskeið að fullu.

Persónulegu námskeiðin
eru ýmist almenn eða sérhæfð. Markmiðið er að efla starfsmenn í starfi en ekki síður að styrkja stöðu þeirra í samfélaginu. Samherji styrkir starfsmenn um 40-60% af námskeiðskostnaði en þeir geta sótt um allt að 75% til stéttarfélags síns, hafi þeir ekki fullnýtt rétt sinn þar.

Tómstundanámskeiðin
tengjast afþreyingu og áhugamálum einstakra starfsmanna. Starfsmenn geta sótt ótakmarkað af tómstundanámskeiðunum, sem kynnt eru í námskránni. Samherji greiðir allt að 50% af námskeiðskostnaði starfsmanna á tvö slík námskeið á ári.  Hámarksstyrkur er 3000 kr á námskeið




Frábært tækifæri til sí- og endurmenntunar


Anna María Kristinsdóttir

Til að hægt sé að halda þau námskeið sem kynnt eru í námskrá Starfsmannaskóla Samherja þarf lágmarksfjölda þátttakenda (yfirleitt miðað við 10-12). Boðið er upp á námskeið á öllum starfsstöðum Samherja, þ.e. á Akureyri, Dalvík, Stöðvarfirði og í Grindavík og fer skráning fram hjá launafulltrúa á hverjum stað. Námskrána í heild er að finna hér á síðunni undir: Starfsmenn.

Anna María Kristinsdóttir, starfsmannastjóri Samherja og umsjónarmaður skólans, segir að nú þegar hafi verið haldin þrjú námskeið og hafi verið full mæting á þau öll. “Skólastarfið hefur því farið mjög vel af stað og framhaldið lofar góðu. Ég vil hvetja alla starfsmenn Samherja til að nýta sér þetta frábæra tækifæri til sí- og endurmenntunar og vera duglega að sækja þau námskeið sem í boði eru,” segir Anna María ennfremur.