Mikil áta í síldinni
Að sögn Guðmundar Þ. Jónssonar skipstjóra á Vilhelm var veiðin dræm til að byrja með enda viðraði illa í síldarsmugunni fyrstu dagana. "Við fengum vitlaust veður fyrstu fimm dagana þannig að lítið var hægt að veiða en svo lagaðist það um leið og veðrið skánaði," segir Guðmundur. Aflinn fékkst að mestu innan Jan Mayen lögsögunnar síðustu tvo dagana. Að sögn Guðmundar var síldin á mikilli ferð og er mikil áta í henni. Afurðirnar úr þessari veiðiferð og þeirri næstu munu dreifast á markaði í Þýskalandi, Póllandi, Litháen og Lettlandi.
Þorsteinn EA-810 er einnig á leið til síldveiða innan tíðar. Reiknað er með að Þorsteinn haldi úr höfn um miðjan júní en verið er að setja niður vinnslubúnað í skipið.