Til þess að framleiða heilnæmar gæðaafurðir þarf gæðaeftirlitið að vera virkt og stöðugt. Í fiskvinnsluhúsum ÚA á Akureyri og Samherja á Dalvík er mikil áhersla lögð á gæðaeftirlit, enda markmiðið að framleiða afurðir sem uppfylla ýtrustu væntingar og kröfur viðskiptavina. “Í raun og veru er okkur fátt óviðkomandi þegar gæðamál eru annars vegar,” segir Sólveig Hallgrímsdóttir í gæðaeftirlitinu á Dalvík.
Fylgja hráefninu alla leið
“Þær eru ansi margar prufurnar sem við tökum á hverjum degi. Í raun og veru fylgjumst við með hráefninu frá togara, þar til afurðirnar eru tilbúnar til útflutnings,” segir Sólveig.
Gæðaeftirlitinu fátt óviðkomandi
“Ef hitastigið er ekki rétt, til dæmis um borð í togaranum látum við strax vita og sömu sögu er að segja um alla staðina í sjálfri vinnslunni, flökunarvélarnar eru athugaðar á tveggja tíma fresti og sömuleiðis hausarar, svo dæmi sé tekið. Snyrtilínan er í stöðugu eftirliti, allt plast, gler og svona mætti lengi telja.”
Rekjanleikinn auðveldari
“Jú, allt eftirlitið er skráð samviskulega með rafrænum hætti, áður var þetta allt saman á pappír með tilheyrandi flækjustigi. Með rafrænni skráningu verður rekjanleiki vörunnar skýrari, kaupendur geta til dæmis kallað eftir upplýsingum og fengið svör og miklu fyrr. Kröfurnar hérna eru strangar, enda erum við að framleiða gæðaafurðir fyrir kröfuharða kaupendur.”
Löggurnar á svæðinu
“Já, kannski má segja að við séum löggurnar á svæðinu. Starfsfólkið tekur okkar ábendingum yfirleitt vel og kann að meta að vel sé fylgst með öllum þáttum vinnslunnar. Þetta er á margan hátt nákvæmnisvinna og öll hátæknin í húsinu er spennandi.”
Góði andinn flutti með starfsfólkinu
“Ég hef unnið hjá Samherja í átta ár og starfsandinn hérna er góður. Þegar við fluttum í nýja húsið var talað um að taka góða starfsandann með og ég held að það hafi tekist með miklum ágætum,” segir Sólveig Hallgrímsdóttir sem sinnir gæðamálum í fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík.