Gengið frá skipaskiptum hjá Samherja

Landfestar leystar.  Baldvin NC-100 hélt til veiða
fyrir nýja eigendur 5. mai s.l.
Landfestar leystar. Baldvin NC-100 hélt til veiða
fyrir nýja eigendur 5. mai s.l.
Samherji hf. hefur gengið frá sölu Baldvins Þorsteinssonar EA-10 til Deutsche Fishfang Union GmbH (DFFU) í Þýskalandi og kaupum á Hannover NC í hans stað. Söluverð Baldvins Þorsteinssonar er 600 milljónir króna og nemur söluhagnaður um 160 milljónum. Kaupverð Hannover er um 850 milljónir króna.Baldvin Þorsteinsson EA-10 hefur þegar verið afhentur nýjum eigendum og fór frá Akureyri 5. maí undir nafninu Baldvin NC 100. Skipið er 995 brúttólesta frystiskip sem smíðað var í Noregi fyrir Samherja og kom til landsins árið 1992.

Nýr Baldvin Þorsteinsson EA 10

Frystiskipið Hannover NC hét áður Guðbjörg ÍS. Skipið hefur þegar verið afhent Samherja og fengið nafnið Baldvin Þorsteinsson EA-10. Skipið er nú í Riga í Lettlandi þar sem verið er að lengja skipið og breyta því í fjölveiðiskip. Áætlaður kostnaður við breytingarnar er um 450 milljónir króna.

Í tengslum við skipakaupin og breytingar hefur Samherji gengið frá samningi við Vereins und Westbank um fjármögnun á langtímaláni upp á ríflega 10 milljónir EUR.

Hinn nýi Baldvin Þorsteinsson EA-10 verður 85 metrar að lengd, aðalvél skipsins er 6000 hestöfl og frystilestar verða um 1.600 rúmmetrar að stærð, sem er allt að helmings aukning frystirýmis frá því sem var. Fyrir eru um borð fullkomnar vinnslulínur fyrir bolfisk og rækju en að auki verður sett upp vinnslulína fyrir uppsjávartegundir. Gert er ráð fyrir að skipið geti fryst 140-150 tonn af uppsjávarfiski á sólarhring og það geti borið um 750 tonn af frystum afurðum, eða um 600 tonn ef afurðunum er komið fyrir á brettum í frystilest.

Áætlað er Baldvin Þorsteinsson EA-10 komi til landsins í ágúst.

Fréttatilkynning frá Samherja hf. fimmtudaginn 16. maí 2002. Nánari upplýsingar gefur Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri í síma 460 9000.