Jólatrésskemmtun Fjörfisks, starfsmannafélags Samherja á Dalvík, var haldin í gær í matsal fiskvinnsluhússins. Jafnt börn sem fullorðnir skemmtu sér konunglega í fagurlega skreyttum matsalnum. Jólasveinninn lét sig að sjálfsögðu ekki vanta og hafði meðferðis í poka sínum góðgæti handa börnunum sem biðu hans með eftirvæntingu. Gengið var í kringum jólatré og boðið var upp á kakó og kökur.
Gleði og eftirvænting
Ragnheiður Rut Friðgeirsdóttir formaður Fjörfisks segir að jólatrésskemmtun hafi ekki áður verið haldin á vegum félagsins, vonandi verði slík skemmtun árviss.
„Við búum svo vel að hafa frábæra aðstöðu til að halda úti öflugu félagsstarfi. Matsalurinn er eins og sniðinn fyrir okkur, hátt til lofts, vítt til veggja og frábært útsýni. Snemma á aðventunni héldum við „litlu jól“ sem tókst afskaplega vel líka. Góður matur, starfsfólkið skiptist á jólagjöfum og naut samverunnar.
Persónulega finnst mér alltaf einstakt þegar jólalög eru sungin á ýmsum tungumálum, enda starfar hérna fólk frá nokkrum þjóðlöndum. Jólatrésskemmtunin gefur okkur kost á að kynnast enn betur og börnin njóta þess að skemmta sér saman. Jólasveinninn er svo vinsamlegur að koma á hverju ári í heimsókn til okkar og alltaf kemur þessi elska með glaðning handa börnunum. Þetta var yndisleg samvera, gleðin og eftirvæntingin var allsráðandi enda ekki á hverjum degi sem mannfólkið kemst í návígi við sjálfan jólasveininn. Nýr kórstjóri Karlakórs Dalvíkur lék jólalög á harmonikku og allir sungu með,“ segir Ragnheiður Rut.