Skip tengd Samherja hf. hafa verið við veiðar á Svalbarðasvæðinu að undanförnu. Að sögn Brynjólfs Oddssonar skipstjóra á frystitogaranum Kiel hefur veiðin verið jöfn og stöðug og afar góð á undanförnum dögum.
Kiel hefur verið við veiðar í mánuð og er kominn með um 1300 tonn af afla upp úr sjó sem gerir um 450 tonn af þorskflökum. Aflaverðmæti veiðiferðarinnar er farið að nálgast 180 milljónir króna. "Veðrið hefur verið mjög gott, bara eins og á Þingvallavatni og það er enn bjart á nóttunni", segir Brynjólfur, sem er afar ánægður með gang veiðanna. Auk Kiel eru á svæðinu tvö önnur skip tengd Samherja, Wiesbaden og Arctic Warrior. Samanlagður afli þessa þriggja skipa var 150 tonn af þorski upp úr sjó á þriðjudag og þau bættu um betur í gær og voru með 170 tonna afla. Þorskurinn er flakaður og frystur um borð og fer á markað í Bretlandi.