Samherji í Grindavík:
Nýtt uppsjávarveiðiskip Samherja hf. Háberg GK kom til Grindavíkur, upp úr miðnætti í nótt, eftir sex daga siglingu heim frá Póllandi. Mikil stemming hefur verið í bænum vegna komu skipsins, sem er eina uppsjávarskipið sem gert verður út frá Grindavík.
Samherji festi kaup á skipinu í september síðastliðnum og þar sem skipið var ekki útbúið til nótaveiða var því siglt rakleiðis til Póllands. Þar voru gerðar ýmsar breytingar á skipinu, sett var í það kraftblökk og fleira nauðsynlegt til nótaveiða. Skipið hafði upphaflega verið útbúið sem nótaskip en búnaðurinn verið tekinn úr 1991.Að sögn Þorsteins Símonarsonar skipstjóra gekk siglingin heim frá Póllandi vel og skipið lét vel í sjó þrátt fyrir brælu alla leiðina. Hábergið heldur á síldveiðar í næstu viku og stefnt er að þvi að 10 menn verði um borð við togveiðar en 12 á nótaveiðum. Skipstjóri er Þorsteinn Símonarson og yfirvélstjóri er Þórhallur Sigurjónsson.
|