„Þessi dómur Hæstaréttar er auðvitað mikil vonbrigði og vekur furðu. Hann segir beinlínis að menn hafi ekki rétt á því að leita réttar síns fyrir dómstólum á meðan stjórnvald hefur mál til rannsóknar. Þetta er niðurstaðan, þrátt fyrir að Samherji hafi hrakið málatilbúnað Seðlabanka með afar sterkum rökum. Samherji hefur sýnt fram á að útreikningar Seðlabankans sem aðgerðir hans gegn félaginu byggja á, eru beinlínis rangir. Hæstiréttir segir fullum fetum að brotið hafi verið á rétti Samherja við málsmeðferðina en engu að síður er málinu vísað frá dómi,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson eftir að Hæstiréttur vísaði máli félagsins frá dómi, í dag.
Hæstiréttur bendir á að ekki sé hægt að kæra aðgerð eða ástand sem héraðsdómur hefur heimilað ef hún er afstaðin, sama á hverju hún byggir. Með þessu móti er því ekki hægt að kæra húsleit eða aðrar rannsóknaraðferðir sem héraðsdómur heimilar því það tekur mun lengri tíma að koma málum fyrir dómstóla en að framkvæma sjálfar aðgerðirnar.
Héraðsdómur hafði áður vísað málinu frá en sett ofan í við Seðlabanka vegna rangra útreikninga á karfaverði, sem málið allt virðist byggja á. Þá bendir Hæstiréttur á að brotið hafi verið á rétti Samherja við málsmeðferðina og er sérstaklega fundið að því að héraðsdómur hafi ekki hvatt fulltrúa Samherja fyrir dóminn þegar krafa um húsleit og haldlagningu var tekin fyrir, eins og skylt hefði verið að gera samkvæmt lögum.
Það kom ekki á óvart að á ríkisfjölmiðillinn sneri fréttum af þessu máli enn eina ferðina á haus. Rangt var farið með niðurstöðuna í fréttum RÚV fyrr í dag. Þar var því haldið fram að forsendur í dómi héraðsdóms þar sem útreikningar Seðlabankans voru gagnrýndir, hefðu verið felldar úr gildi. Þetta er rangt og enn stendur óhaggað það sem fram kom í úrskurði héraðsdóms að útreikningarnir eru rangir.
Þorsteinn Már Baldvinsson
Kristján Vilhelmsson
Dómur Hæstaréttar í heild sinni (linkur)